Sport

Fim­leika­stelpurnar fá fjór­tán milljarða vegna sinnu­leysis FBI

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Simone Biles var meðal þeirra fimleikakvenna sem sögðu frá samskiptum sínum við lækninn.
Simone Biles var meðal þeirra fimleikakvenna sem sögðu frá samskiptum sínum við lækninn. Getty/Graeme Jennings-Pool

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur samþykkt að greiða hundrað fórnarlömbum fimleikalæknisins Larry Nassar samanlagt hundrað milljónir dollara í skaðabætur. Bandarískir miðlar segja að þetta sé nánast frágengið.

Hundrað milljónir dollara eru meira en fjórtán milljarðar íslenskra króna. Ástæðan fyrir skaðabótunum eru mistök Alríkislögreglunnar, FBI, við rannsókn málsins. FBI fékk sterkar vísbendingar um brot Nassar en tók ekki mark á þeim og hann komst upp með brot sín áfram. 

Nú þykir það sannað að FBI lögreglumennirnir rannsökuðu ekki kvartanir fórnarlamba Nassar almennilega. Christopher Wray, yfirmaður FBI, bað fórnarlömbin afsökunar á sinnuleysi FBI á sínum tíma. Hann sagði það óafsakanlegt að rannsóknarlögreglumenn hafi ekki nýtt tækifærið til að stöðva skrímslið.

Nassar var læknir bandaríska fimleikalandsliðsins og starfaði einnig hjá Michigan State háskólanum. Hann var dæmdur sekur fyrir kynferðisáreiti og barnaklám.

Hann var kærður fyrir að áreita að minnsta kosti 265 stelpur eða ungar konur en hann vann í átján ár fyrir bandaríska landsliðið. Meðal fórnarlamba hans voru margir Ólympíufarar og verðlaunahafar á leikunum. Ein af þeim er stórstjarnan Simone Biles.

Nassar verður í fangelsi til lífsloka. Hann fékk sextíu ára dóm fyrir barnaklám og svo 40 til 124 ár að auki fyrir kynferðisbrot.

Þessar skaðabætur bætast við aðrar sem hafa verið greiddar til fórnarlamba hans. Talið er að þær fari yfir einn milljarða dollara gangi þessar greiðslur í gegn. Það gerir meira en 142 milljarða í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×