Skoðun

Blekkingin um af­skipta­leysi ráð­herra af rekstri Lands­bankans

Stefán Ólafsson skrifar

Bankasýslan var sett á stofn til að tryggja aðskilnað stjórnmála frá rekstrarákvörðunum banka í eigu ríkisins í kjölfar bankahrunsins 2008 (svokallað "armslengdar-fyrirkomulag"). Þetta var hugsað þannig að bankar í eigu ríkisins væru einfaldlega reknir á sömu forsendum og einkabankar og ættu að standa sig í samkeppninni á bankamarkaðinum - án afskipta stjórnmálamanna.

Stjórnendur ríkisbanka ættu þannig að hafa fullt sjálfstæði til að taka ákvarðanir um rekstur og þróun viðkomandi banka og velja leiðir til að auka samkeppnishæfni hans, sem myndi auðvitað þjóna hagsmunum eigenda (ríkisins, þ.e. þjóðarinnar). Auka verðmæti bankans og hækka arðgreiðslur til eigenda til frambúðar. Almælt er á fjármálamarkaði að þetta sé vænleg leið.

Nú er komin upp sú staða að forsendan um armslengd frá stjórnvöldum er orðin algerlega meiningarlaus - eða opinberuð sem blekking með þeim starfsháttum sem Bankasýslan hefur stundað! Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur lýst sig algerlega andvígan ákvörðun stjórnenda Landsbankans um að kaupa tryggingafélagið TM til að styrkja stöðu og samkeppnishæfni bankans - og það hefur beinar afleiðingar fyrir bankann.

Ráðherrann fylgdi þessu eftir og skipaði Bankasýslunni að reka allt bankaráð Landsbankans og knýja fram umsnúning á þessari rekstrarákvörðun stjórnenda Landsbankans með nýju handvöldu bankaráði. Formaður Bankasýslunnar hefur nú lýst því yfir að Bankasýslan muni svo funda með nýja bankaráðinu og leggja fyrir það hvernig undið skuli ofanaf hinni "sjálfstæðu" ákvörðun fyrra bankaráðs - jafnvel þó það muni kosta bankann mikla fjármuni og orðsporsmissi - sem veikir stöðu bankans á markaði.

Það gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar sem eiganda en þjónar væntanlega hagsmunum þeirra sem vilja selja bankann á sem lægstu verði til auðmanna sem fyrst (sjá hér).

Spurningin sem blasir við er þá þessi: Hvernig eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ekki að skipta sér af rekstri Landsbankans?

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×