Fótbolti

Þurfa að stöðva ógnar­sterka liðs­fé­laga Gló­dísar

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenska landsliðið þarf frammistöðu úr efstu hillu til þess að klekkja á liði Þýskalands í undankeppni EM í kvöld. Klara Buhl og Lea Schuller, leikmenn Þýskalands og liðsfélagar Glódísar Perlu hjá Bayern Munchen, búa yfir gæðum í heimsklassa
Íslenska landsliðið þarf frammistöðu úr efstu hillu til þess að klekkja á liði Þýskalands í undankeppni EM í kvöld. Klara Buhl og Lea Schuller, leikmenn Þýskalands og liðsfélagar Glódísar Perlu hjá Bayern Munchen, búa yfir gæðum í heimsklassa Vísir/Samsett mynd

Ís­lenski lands­liðs­fyrir­liðinn Gló­dís Perla Viggós­dóttir, leik­maður þýska liðsins Bayern Munchen, mun í kvöld mæta nokkrum af liðs­fé­lögum sínum þegar að Þýska­land og Ís­land mætast í undan­keppni EM 2025 í fót­bolta í Aachen í Þýska­landi. Tvær af þeim, sóknar­leik­mennirnir Lea Schuller og Klara Buhl, búa yfir gæðum sem koma þeim á lista yfir bestu leik­menn í heimi að mati Gló­dísar.

Aron Guð­munds­son skrifar frá Aachen

Leik­menn ís­lenska lands­liðsins munu þurfa að hitta á sinn dag til þess að standa í fullu tré við þýska liðið, eitt besta lands­lið í heimi, í kvöld. Ein­stak­lings­gæðin sem þýska liðið hefur innan sinna raða eru mjög mikil. Þar innan­borðs eru leik­menn sem geta tekið upp á því að vinna leiki á sínar eigin spýtur.

Hin 26 ára gamla Lea Schuller hefur komið að tuttugu og tveimur mörkum á yfir­standandi tíma­bili fyrir Bayern Munchen og þýska lands­liðið. Og akkúrat sömu sögu er að segja af hinni 23 ára gömlu Klöru Buhl en báðar leika þær með Bayern Munchen líkt og ís­lenski lands­liðs­fyrir­liðinn Gló­dís Perla.

Klippa: Glódís þekkir tvær af helstu stjörnum Þjóðverja mjög vel.

Ekki eru þetta einu vopn þýska liðsins en Gló­dís Perla hefur ekki tekið upp á því í að­draganda leiksins að tala eitt­hvað sér­stak­lega um þessa tvo leik­menn við sína liðs­fé­laga í ís­lenska lands­liðinu.

„Nei ég hef svo sem ekki sagt neitt sér­stak­lega um þessa tvo leik­menn við stelpurnar. Við erum líka með mikið af gríðar­lega góðum leik­mönnum, góða varnar­menn. Ég hef engar sér­stakar á­hyggjur af því að þetta verði ein­hver ó­jöfn keppni þar á milli.“

En hverjir eru helstu styrk­leikar þessara tveggja leik­manna, Leu og Klöru?

„Klara er frá­bær í stöðunni einn á einn. Örugg­lega einn besti leik­maður í heimi í þeirri stöðu. Þá er hún kraft­mikil, getur notað báðar fætur, skotið og gefið fyrir. Þá búa þær báðar yfir mikilli hlaupa­getu.

Lea er frá­bær í loftinu og er að mínu mati besti leik­maður í heimi í loftinu. Að sama skapi er hún orðin gríðar­lega vinnu­söm, hleypur mikið og hratt. Þetta eru þeirra helstu styrk­leikar.“

Leikur Ís­lands og Þýska­lands hefst klukkan tíu mínútur yfir fjögur og verður honum lýst í beinni texta­lýsingu hér á Vísi. Þá færum við ykkur brakandi fersk við­brögð frá lands­liðs­þjálfaranum sem og leik­mönnum Ís­lands fljót­lega að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×