Innlent

Réðst á móður sem hélt á syni sínum í Kringlunni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Árásin átti sér stað í Kringlunni árið 2022.
Árásin átti sér stað í Kringlunni árið 2022. Vísir/Vilhelm

Kona hlaut í síðasta mánuði þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, fyrir að ráðast á aðra konu sem hélt á syni sínum.

Atvik málsins áttu sér stað í apríl 2022 fyrir framan verslun Byggt og Búið í verslunarmiðstöðinni Kringlunni í Reykjavík. Konunni var gefið að sök að slá hina konuna í andlitið með krepptum hnefa, rífa í hár hennar, og slá hana í bakið. Fyrir vikið hlaut brotaþolinn áverka á höfði og á hálsi.

Konan sem varð fyrri árásinni hélt á syni sínum á meðan hún átti sér stað. Ekki kemur fram í dómnum hversu gamall sonurinn var. Sú ákærða þótti með háttsemi sinni beita syninum ógnunum og sýna honum vanvirðandi hegðun, yfirgang og ruddalegt athæfi.

Jafnframt var konan ákærð fyrir hótanir í garð móðurinnar, sonarins og annars einstaklings. Þær áttu sér stað á sama tíma og árásin, en henni var gefið að sök að hóta þeim lífláti og draga fingur sína þvert yfir háls sinn. Ummæli hennar og háttsemi þóttu til þess fallin að vekja ótta hjá fólkinu um líf, heilbrigði og velferð sína.

Konan játaði skýlaust sök, og þótti dómnum ekki ástæða til að draga hana í efa. Brot hennar þóttu því sönnuð með hliðsjón af játningunni og öðrum gögnum málsins. Konan hafði ekki hlotið dóm áður.

Líkt og áður segir var hún dæmd í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi. Þá er henni gert að greiða hinni konunni 250 þúsund krónur í miskabætur, en hún hafði krafist einnar milljónar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×