Viðskipti innlent

Hækka láns­hæfis­mat bankanna

Atli Ísleifsson skrifar
S&P horfir nú með jákvæðari hætti en áður til þeirrar efnahagslegu áhættu sem íslenskir bankar standa frammi fyrir.
S&P horfir nú með jákvæðari hætti en áður til þeirrar efnahagslegu áhættu sem íslenskir bankar standa frammi fyrir. Vísir

Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) hækkaði í dag lánshæfismat Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka úr BBB í BBB+. Efnahagslegt ójafnvægi er sagt hafa dvínað og eru horfur stöðugar.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka kemur fram að lánshæfismat bankans fari úr BBB í BBB+ og þá er A-2 skammtímaeinkunn bankans staðfest. Horfur eru stöðugar.

„Að mati S&P hefur efnahagsleg áhætta (e. economic risk) sem íslensku bankarnir standa frammi fyrir dvínað samhliða auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og umtalsvert minni skuldsetningu einkageirans. Þá álítur S&P horfur á sértækri áhættu (e. industry risk) almennt stöðugar þar sem íslensku bankarnir eru arðsamir og vel fjármagnaðir sem gerir þá vel í stakk búna til að takast á við hugsanleg minnkandi eignagæði og verjast samkeppni erlendra banka og annarra fyrirtækja ef til þess kæmi,“ segir í tilkynningunni.

Endurspeglar væntingar

Á vef Landsbankans segir að hækkunin þar nemi einu þrepi og sé lánshæfismatið nú BBB+ með stöðugum horfum.

Komi fram að matið endurspegli væntingar um að Landsbankinn muni viðhalda leiðandi stöðu á íslenskum markaði og reksturinn verði áfram traustur.

Minni skuldsetning

Á vef Arion banka segir að S&P Global Ratings telji að sú efnahagslega áhætta sem íslenskir bankar standi frammi fyrir fari dvínandi með auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og umtalsvert minni skuldsetningu heimila og fyrirtækja.

„Þannig horfir S&P með jákvæðari hætti en áður til þeirrar efnahagslegu áhættu sem íslenskir bankar standa frammi fyrir og hefur lánshæfismatsfyrirtækið endurmetið grunnviðmið íslenskra banka og hækkað það í bbb úr bbb-.

Það er jafnframt niðurstaða S&P að hækka langtíma lánshæfismat Arion banka úr BBB í BBB+ og eru horfur stöðugar. Einnig staðfestir S&P A-2 skammtíma lánshæfismat bankans.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×