Fálkaorðuhafinn á Olís: „Lengi afneitaði ég því að Ragnar væri dáinn“ Rakel Sveinsdóttir skrifar 31. mars 2024 08:00 Sögur segja að fólk einfaldlega leggi leið sína á Olís á Akureyri til að kasta kveðju á Boggu, fálkaorðuhafann og stofnanda Raggagarðs. Sem missti barnsföður sinn í snjóflóði og síðar son sinn í bílslysi. Lífsgleði og jákvæðni Boggu er einfaldlega smitandi. Vísir/Vilhelm „Lengi afneitaði ég því að Ragnar væri dáinn. Ef fólk fór að tala um hann í þátíð, gekk ég í burtu. Því með því að tala ekki um að hann væri dáinn, náði ég að sannfæra mig um að kannski væri hann á lífi, segir Sesselja Vilborg Arnardóttir stöðvarstjóri Olís á Akureyri, fálkaorðuhafi og stofnandi Raggagarðs í Súðavík. Alltaf kölluð Bogga. „Höfuðið var vafið eins og á múmíu, svo illa var það farið. Ég þekkti ekki fötin hans því að hann var fluttur að heiman þegar hann lendir í slysinu. Ég fékk þó að halda í hendina á honum,“ segir Bogga. Það má með sanni segja að Bogga hafi upplifað ótrúlegar raunir. En um leið afrekað meira en við flest hin. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira. Í dag ætlum við að kynnast Boggu. Eitt vinsælasta trend ferðamanna um Vestfirði er að taka selfie hjá Aski og Emblu, sem taka myndarlega á móti um átján þúsund gestum Raggagarðs í Súðavík á sumrin. Á næsta ári verður garðurinn tuttugu ára en hugmynd Boggu var að búa til útisvæði þar sem börn og fullorðnir gætu leikið sér saman. Að lifa í gleði Ef lífið hefur kennt Boggu eitthvað, segir hún það vera að lifa lífinu lifandi. „Því við eigum bara eitt líf.“ Hún segir miklu skipta að gefa ættingjum og vinum kærleika og vináttu. Dæma hvorki aðra né öfunda. Grasið sé ekkert grænna hinum megin. „Það glíma allir við vandamál einhvern tíma á lífsleiðinni.“ Mestu skipti að lifa í gleðinni og sátt við alla. „Ég lifði lengi í EF-inu. Hvað ef…. En lærði loks að ég get engu breytt úr fortíðinni né því sem ég gerði í gær. Við þurfum að lifa í núinu. Þótt maður lendi í einhverju slæmu. Því við getum alltaf stjórnað því hvernig við tökumst á við hlutina.“ Það er ekki hægt annað en að verða svolítið hugfanginn af því að renna yfir lífshlaupið með Boggu. Því jákvæðnin er þar í fyrirrúmi og ekki að undra að sögur segi að fólk einfaldlega komi oft við á Olís á Akureyri þar sem hún starfar, einfaldlega til að heilsa upp á Boggu. „Ég elska vinnuna mína. Hreinlega hlakka til að vakna alla morgna.“ Bogga fæddist 1.september árið 1964 og á níu systkini. Þar af sjö hálfsystkini. Tvö þeirra eiga meira að segja afmæli sama dag og hún. „Já ég fékk tvisvar sinnum systkini í afmælisgjöf,“ segir Bogga og hlær. Enda frekar fyndið því þessi systkini eru ekkert skyld; börn sitthvors foreldris Boggu. Foreldrar Boggu, Elísa Vilborg Berthelsen og Arnar Skúlason, skildu þegar hún var tveggja ára. Lunga æsku Boggu var í Hvítadal í Dalasýslu, þar sem hún bjó með móður sinni og stjúpa frá fimm til fimmtán ára. „Að alast upp á sveitabæ þýddi að ég var byrjuð að stýra dráttarvél átta ára og lærði fljótt að vinna. Henda böggunum upp á vagna eða mjólka beljur,“ segir Bogga og brosir. Fimmtán ára flutti Bogga til Bolungavíkur til að vinna í fiski. Þar bjó pabbi hennar með sinni konu og börnum en fyrst til að byrja með, bjó Bogga hjá systur sinni. „Í Dölunum var litla vinnu að fá nema í sláturtíð. En það vantaði alltaf fólk í fiskinn.“ Bogga starfaði þó lengst af í matvöruversluninni Einarsbúð, verslun í eigu Einars Guðfinnssonar hf. „Ég er enn kölluð Bogga í Einarsbúð af sumum í Bolungavík,“ segir Bogga kát. Þegar Bogga var ung og ástfangin tveggja barna móðir í Bolungavík hrundi heimurinn þegar Bjarki Vestfjörð barnsfaðir hennar lést í snjóflóði við Óshlíð. Á mynd til vinstri má sjá Bjarka með Sindra, yngri son hans og Boggu í fanginu en lík Bjarka hefur aldrei fundist. Á mynd má líka sjá húsið þeirra í Bolungavík og bræðurna Ragnar og Sindra. Ung og ástfangin í sorg Í Bolungavík varð Bogga ástfangin. „Ég fann rollulykt af einum úr djúpinu sem var þarna í vélvirkjanámi og nældi mér í hann,“ segir Bogga og hlær. Hinn heittelskaði var Gunnar Bjarki Vestfjörð frá Laugarbóli í Ísafjarðardjúpi, alltaf kallaður Bjarki. Bogga og Bjarki eignuðust tvo syni: Ragnar Frey Vestfjörð, fæddan 6. október 1983 og Sindra Vestfjörð, fæddan 25. mars 1988. Ætlunin var að Bjarki myndi síðar taka við búinu af móður sinni, Rögnu á Laugarbóli. Parið var samt búsett næstu árin í Bolungavík og haustið 1988, fór Bjarki að vinna hjá Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði. Á leið til vinnu einn morguninn, lést Bjarki. „Það var alltaf talað um að þegar eitt snjóflóð fellur, fylgir ekki annað á eftir. Það gerðist þó því Bjarki minn og félagi hans, Skarphéðinn Ólafsson voru að keyra á sitthvorum jeppanum þegar þeir komu að flóði sem féll í Óshlíð. Jónmundur Kjartansson lögreglumaður og tónlistarmaður var líka á ferð en hann beið í sínum bíl á meðan Bjarki og Skarphéðinn ákváðu að halda áfram, fullvissir um að ekki kæmi annað flóð.“ Eftir nokkra stund mætir Jónmundur hins vegar heflinum sem var að koma hinum megin að. Sá sem keyrði hann, hafði engan séð. Um viku seinna fannst lík Skarphéðins í sjónum. Bjarki hefur hins vegar aldrei fundist. Seinna samdi Jónmundur lag um þetta slys, sem hann kallaði Lífið. „Eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera var að fara til sýslumanns og biðja sjálf um að úrskurða Bjarka látinn,“ segir Bogga og útskýrir að ef fólk finnst ekki, sé það ekki skráð látið í kerfinu. Ég hélt ekki að ég myndi lifa það af þegar Bjarki minn dó. Upplifunin var eins og lífið væri byggt úr legókubbum og allt í einu hefði einhver komið og rústað kubbunum þannig að allt hrundi.“ Allt öryggi var farið. „Fólk sagði alls kyns hluti sem það eflaust meinti vel en voru ekki að hjálpa. Eins og „lífið heldur áfram,“ eða „þú nærð þér í nýjan.“ Á þessum tíma var andrúmsloftið svolítið þannig að fólk ætti að bíta á jaxlinn ef eitthvað kom fyrir. Ekki að væla, heldur halda bara áfram.“ Svo ótrúlega vildi til að áður en Bjarki lést, hafði sölumaður sannfært unga parið um að kaupa líftryggingu. „Ég veit ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið með þessa líftryggingu. Með þessum peningum náði ég að borga sonum mínum út, en eftir að ég fékk hann úrskurðaðan látinn urðu þeir erfingjar Bjarka. Með líftryggingunni náði ég að borga þá út og kaupa íbúð í parhúsi.“ Í því húsi bjó einnig ekkja Skarphéðins. „Við gerðum gönguleið á bakvið og urðum góðar vinkonur þó við hefðum alls ekkert verið það fyrst þegar við kynntumst. En það hjálpaði mikið að geta stutt við hvor aðra.“ Í litlum bæjarfélögum er forvitnin þó oft mikil. „Ég átti góða að, fjölskyldu og vinnufélaga sem hjálpuðu því sjálf vildi ég svolítið draga mig inn í skelina. Að vera ekkja í litlu þorpi er samt erfitt. Þar er vel fylgst með því hverjir koma heim til manns og svo framvegis.“ Samfélagið í Súðavík var í mikilli sorg þegar Bogga og Dóri fluttu þangað með Sindra og Ragnar. Í snjóflóðinu í Súðavík misstu Ragnar og Sindri tvær frænkur sínar: Mæðgurnar Bellu Vestfjörð og dóttir hennar Petreu. Hjónin sem áður ráku Shell skálann voru meðal þeirra bæjarbúa sem létust. Samfélag í sorg Í janúar 1991 kynntist Bogga núverandi eiginmanni sínum, Halldóri Má Þórissyni, sem þá bjó á Ísafirði. „Við kynntumst á bílstjóraballi á Ísafirði janúar 1991 og þá var ekki aftur snúið,“ segir Bogga með glampa í augum. Bogga og Halldór byrjuðu að búa saman í Bolungavík en þegar fyrirtækið Einar Guðfinnsson fór á hausinn, fór Bogga að vinna við heimilisþrif og umönnun aldraðra í heimahúsum. Ótti læddist oft að Boggu, ein af afleiðingunum af því hvernig Bjarki dó. „Dóri var að vinna á Ísafirði og keyrði því Óshlíðina alla daga. Ef hann datt úr símasambandi í smá stund, gat ég strax orðið mjög hrædd.“ Bogga og Halldór giftu sig 27. ágúst 1994. Á nýársdag 1995 eignuðust þau tvíburana Þóri Garibalda og Elísu Vilborgu, fyrstu börnin á landinu það árið. Fyrir átti Halldór börnin Andra Má og Birgittu Björk. Sorgin bankaði þó upp á tveimur vikum síðar því þann 16. janúar 1995 féllu mannskæðu snjóflóðin í Súðavík. Meðal þeirra sem létust voru Bella Vestfjörð, systir Bjarka heitins og dóttir hennar Petrea. Bogga segir að það að hafa misst tvö börn og barnabörn hafi gert fyrrum tengdamóður hennar, Rögnu á Laugarbóli, afar erfitt fyrir. Hún hafi lengi verið í mikilli reiði og í sorg sé reiði aldrei af hinu góða. Bogga og Dóri með börnin fjögur: Ragnar, Sindra og tvíburana Þóri Garibalda og Elísu Vilborgu en þau voru fyrstu börn ársins 1995. Ragnar heitinn hjálpaði oft mömmu sinni að gefa tvíburunum því Dóri var alltaf að vinna í söluskálanum í Súðavík. Ekki var um auðugan garð að gresja í atvinnumálum eftir að Einar Guðfinnsson hf. fór á hausinn í Bolungavík. Þegar Skeljungur hafði samband við Halldór og bauð honum að gerast umboðsmaður fyrir stöðinni þeirra í Súðavík, fluttist fjölskyldan þangað. Sem var nokkuð erfitt, því að samfélagið var í svo mikilli sorg. „Ragnar og Sindri minn höfðu til dæmis misst tvær frænkur sínar þarna og hjónin sem höfðu áður rekið Shell létust bæði. Samfélagið var í rúst, svo mikil var sorgin.“ En nú þurfti að sjá fyrir enn stærri fjölskyldu og því ekkert í stöðunni annað en að slá til. „Við tókum við Shell skálanum á sama tíma og ég kom heim með tvíburana. Dóri var lítið heima vegna þess að söluskálinn kostaði viðveru hans. Ég var að vakna á tveggja tíma fresti alla nóttina til að gefa þeim og þar sem þau voru fyrirburar tók það langan tíma,“ segir Bogga og bætir við: „Ég var lítið sofin og í raun eins og einstæð móðir með fjögur börn. Ragnar minn gat þó gefið öðrum tvíburanum pela á meðan ég gaf hinum. Hann hjálpaði svo mikið.“ Þegar kvótinn var seldur úr bænum og togarinn Bessi ásamt togurunum Andra og Kofra hurfu úr bænum til annarra starfa, var söluskálinn hættur að ná endum saman. „Það var nokkur fjöldi verktaka fyrst eftir að snjóflóðin féllu og síðan stóluðum við auðvitað á olíuna sem seld var í skipin. En þegar bæði verktakarnir og skipin voru farin voru tekjurnar nánast engar,“ segir Bogga og bætir við: „Og ekki voru þeir nú hjálpsamir hjá Shell í bænum, sem lögðu til að við myndum vera með tilboð á samlokum til að glæða reksturinn!“ Það er ljóst að Boggu finnst ekki mikið til koma um þessi viðbrögð, en fljótt var það þó annað sem yfirtók allt. Því sunnudaginn 19.ágúst 2001 er Boggu tilkynnt að Ragnar hefði látist í bílslysi um morguninn. Ragnar hafði verið með félögum á rúntinum kvöldið og nóttina áður. Á heimleið losaði hann sig úr bílbeltinu til að leggja sig aftur í. Vinur Ragnars keyrði en sofnaði við stýrið. Halldór hafði verið að keyra leigubíl um nóttina og var einn þeirra sem kom að slysinu þegar lögreglan var að gera að og sjúkrabílar. „Hann vissi strax að hann gæti ekki sagt mér fréttirnar og bað því um prest og lækni með sér heim.“ Heima vakti Halldór Boggu og bað hana um að koma fram. Þegar Bogga hins vegar sá prestinn, lokaði hún hurðinni á herberginu. Dóri minn setti fótinn á milli og kom þannig í veg fyrir að ég næði bara að loka mig inni í herberginu aftur. En málið er að um leið og ég sá prestinn, vissi ég að það væru slæmar fréttir.“ Í minningargrein sem birt var í Morgunblaðinu um Ragnar segir meðal annars: „Elsku Ragnar, þá ertu kominn til föður þíns sem þú þráðir svo heitt og veltum við því fyrir okkur hvort löngu sé búið að gefa í þessu lífsins spili.“ „Ragnar var fimm ára þegar pabbi hans dó og auðvitað hafði föðurmissirinn áhrif á hann. Ragnar var alvörugefinn en ég held að samt að það hafi verið hans karakter frekar en afleiðing af því að missa pabba sinn. Honum fannst mjög erfitt að flytja í Súðavík á sínum tíma, sérstaklega vegna þess að tvær frænkur hans höfðu dáið í snjóflóði þar.“ Bogga fékk ekki að sjá andlit Ragnars þegar hann lést í bílslysi 19.ágúst 2001, svo illa var það farið. Bogga afneitaði því lengi að Ragnar væri dáinn en vaknaði upp við það einn daginn að hún væri farin að líkjast tengdamóður sinni forðum; Rögnu á Laugarbóli. Sem of lengi var reið og beisk eftir að missa börn og barnabarn. Sorg móður Bogga segir stöðuna hafa verið þannig að Skeljungur ætlaði að gera hjónin gjaldþrota með því að hirða af þeim húsið sem þau höfðu byggt í Súðavík. „Sem var fáránlegt því það hvíldu miklar skuldir á því,“ segir Bogga. Að fara í þrot þýddi að fjölskyldan þyrfti að flytja úr Súðavík. Sem skipti Boggu miklu máli að vita, því það hefði þá breytt því hvar hún vildi jarða Ragnar. Bogga gekk því hart eftir því að fá svör og var loksins tjáð af aðila að þau yrðu ekki sett í þrot. „Síðan breyttu þeir því eftir að Ragnar var jarðaður. Ég hafði því samband við Biskupsstofu til að athuga hvort ég fengi að grafa drenginn upp og færa ef þess þyrfti.“ Á endanum fór Skeljungur fram á árangurslaust fjárnám en ekki gjaldþrot. Bogga og Halldór bjuggu því áfram í húsinu, sem síðar var selt með 600 þúsund krónur í plús þegar fjölskyldan flutti einhverjum árum síðar. Til þess að lifa af, segir Bogga hennar leið einfaldlega hafa verið þá að afneita því að Ragnar væri dáinn. Annað hefði verið alltof þungbær sársauki. Líðanin var skelfileg. „Ég var þunglynd og átti erfitt með að fara á fætur, að vinna eða að gera eitthvað.“ Þegar loksins fór að rofa til, segir Bogga að hún hafi í raun fengið eins og hugljómun. „Einn daginn áttaði ég mig á því að ég var að verða eins og tengdamóðir mín: Reið og bitur.“ Uppúr þessu sneri Bogga við blaðinu. „Í fyrsta sinn sem ég játaði fyrir sjálfri mér og öðrum að Ragnar væri dáinn, var þegar ég hélt fyrirlestur sem ég var beðin um í kirkjunni á Ísafirði um það hvernig væri að missa ástvin í umferðaslysi.“ Um sorgina segir Bogga. Margir segja að tíminn lækni öll sár. Ég myndi ekki segja að það eigi við um að missa barn. En lífið verður með tímanum betra.“ Á tæpum tuttugu árum hafa 50 milljónir verið lagðar í Raggagarð fyrir utan sjálfboðastarf Boggu og Dóra. Fimm manna stjórn hefur verið skipuð garðinum með Boggu frá upphafi og hún segir ótrúlega marga hafa lagt garðinum lið í gegnum árin. Raggagarður Bogga fann heilun í ýmsu. Hún fór til dæmis að teikna andlitsteikningar, týna jurtir og nota við listsköpun, bræða vínylplötur og búa til blómavasa, búa til flottar blómaskreytingar og margt fleira. Þá tók hún að sér að standa fyrir bryggjudaga fyrir sveitafélagið. „Þegar Ómar Jónsson sveitastjóri spurði hvort ég væri til í það, spurði ég hann reyndar hvort hann væri ekki í lagi: Að ætla að fá þunglyndustu manneskjuna í bænum til að halda hátíð!“ segir Bogga og nú er stutt í hláturinn. Verkefnið fannst henni þó skemmtilegt. „Þetta var geggjað. Ég fékk sveitastjóra á Vestfjörðum til að keppa sín á milli í að flaka fisk, það var róðrakeppni og fleira og í eitt skiptið reyndi fólk að smygla sér inn á ball í tjaldi sem þó tók 550 manns, svo mikil var eftirsóknin!“ Með Bryggjudagsnefnd vann Bogga að hátíðinni árin 2003, 2004 og 2005. „Þegar ég fékk Papana til að spila trylltist allt!“ Það skemmtilega var að með þessu áttaði Bogga sig líka á því að svo margt gæti hún. „Maður er svo oft lítill í sér og áttar sig ekki á sínum eigin hæfileikum fyrr en maður prófar eitthvað svona.“ Í mörg ár hafði Bogga haft þann draum að búa til fjölskyldugarð sem hefði það að markmiði fyrst og fremst að vera skemmtilegt útileikjasvæði fyrir börn. Bogga sá fyrir sér að svæðið á Nesvegi í Súðavík væri tilvalinn staður. „Því útisvæðið væri bara í notkun á sumrin þegar engin hætta er á snjóflóðum.“ Bogga segir fáa hafa haft trú á að svona garður gæti orðið að veruleika. „Allt sem þarna hefur verið gert hefur verið framkvæmt fyrir sjálfsaflarfé og með sjálfboðavinnu. Ég bakaði kleinur til að fjármagna fyrstu framkvæmdirnar og endaði með að baka um fjögur tonn af kleinum!“ Til að mynda bakaði Bogga kleinur sem skipin voru farin að panta frosnar í pokum til að taka með sér þegar aftur væru lagt úr höfn. Nálægt Raggagarði er minningarlundur um þau sem fórust í snjóflóðinu í Súðavík árið 1995. Garðurinn skiptist í þrjú svæði: Leikjasvæði með leiktæki fyrir alla fjölskylduna. Útivistarsvæði með listaverk, borð og sæti og fleira. Og loks Boggutún þar sem finna má níu körfu frisbívöll. Um átján þúsund manns heimsækja garðinn á sumrin og viðurkennir Bogga að aldrei hafi henni órað fyrir vinsældunum. „Mig dreymdi samt um að þetta yrði garður þar sem foreldrar og börn gætu leikið sér saman og það varð að veruleika.“ Draumurinn er síðan að gera göngustíg og útsýnispall og ljóst að Bogga er hvergi nærri af baki dottin þegar kemur að garðinum. „Ég vona svo innilega að ég geti fengið styrk til að gera göngustíginn, útsýnispall og bæta aðgengi fólks því þá verður framkvæmdum við garðinn í raun lokið,“ segir Bogga en árið 2025 verða tuttugu ár frá því að fyrsta skóflustungan var tekin. Flestir tengja Raggagarðinn við son Boggu sem lést í slysinu. Sem svo sem eðilegt er, því Bogga svo sannarlega tengdi hugmyndina við hann og hans minningu. Nafnið Raggagarður er samt ekkert frá mér komið. Þannig var að ég var að vinna í kirkjugarðinum líka. Síðan sá ég um að klippa tré og snyrta í görðum hjá fólki og síðan var ég að vinna í leikjagarðinum. Og til þess að tvíburarnir vissu hvar ég væri í hvert sinn sagði ég oft við þau: Ég er að fara í kirkjugarðinn, eða í garðinn hjá þessum eða …í Raggagarð. Svona til aðgreiningar.“ Þegar nafnasamkeppni var síðan haldin fyrir garðinn, voru flestar tillögurnar þær að garðurinn héti Raggagarður. „Því auðvitað voru svo margir þá þegar farnir að kalla hann Raggagarð.“ Bogga segir ótalmarga hafa komið að verkefninu og frá upphafi hefur Raggagarður verið skipaður af fimm manna stjórn með Boggu. Jákvæðni Boggu er smitandi enda hringdi biskupinn sjálfur í hana eftir að hafa horft á hana í þætti hjá Jóni Ársæli á Stöð 2 um árið. Bogga elskar vinnuna sína hjá Olís á Akureyri en allar frístundir fara í Raggagarð, sem hlotið hefur margar viðurkenningar. Meðal annars Landstólpa Byggðastofnunnar sem afar fáir hafa hlotið. Nauðarflutningar á Akureyri Árið 2013 segist Bogga hafa verið flutt nauðaflutningum á Akureyri. „Maðurinn minn fékk vinnu hjá Wurths á Akureyri. Tvíburarnir voru orðnir unglingar og vildu fara þangað líka. En ég var ekki sátt. Byrjuð á Raggagarði og líka farin að reka gistiheimili sem ég sá fyrir mér að byggja upp og ná á endanum að reka sem heilsársferðaþjónustu,“ segir Bogga. En auðvitað var ekki annað í stöðunni en að fylgja fjölskyldunni. Á Akureyri tók það Boggu um tvo mánuði að finna vinnu. „Enda allt öðruvísi. Fyrir vestan fór maður bara á milli, heilsaði upp á fólk og spurði hvort það vantaði einhvern. Á Akureyri var mér bara rétt eyðublöð og mér sagt að fylla út einhverja formlega umsókn,“ segir Bogga og lyftir brúnum. Loks rakst Bogga á auglýsingu í Dagskránni um að Olís vantaði starfsmann. „Umboðsmaður Olís tók viðtalið en ég tók samt eftir því að það var alltaf einhver eldri sköllóttur kall með skegg að gjóa augunum að mér. Það reyndist þá vera hann Doddi stöðvastjóri,“ segir Bogga og hlær. Umræddur Doddi, Þorsteinn Stefán Jónsson og umboðsmaðurinn buðu Boggu starfið. „Þeim leist svo vel á mig að í lok viðtalsins spurðu þeir: Getur þú byrjað á morgun?“ Bogga segist afar stolt en líka mjög þakklát fyrir fálkaorðuna sem hún hlaut í janúar árið 2023. Af því tilefni fóru Halldór og Bogga til Bessastaða og segir Bogga Dóra ekkert síður eiga viðurkenninguna skilið: Hann hafi stutt hana í einu og öllu alla tíð. Eins og kletturinn sjálfur. Smitandi lífsgleði Þegar Doddi ákvað að hætta, hringir hann í Boggu og segist leggja til að hún taki við. „Mér leist ekkert á þá hugmynd fyrst,“ segir Bogga og skellihlær. „En síðan fór ég að hugsa: Hvað ef einhver verður ráðinn sem ég kann ekki við? Er þá ekki bara betra að gera þetta sjálf?“ Sem hún stóð vel undir því Doddi var búinn að kenna henni margt. „Ég er líka með svo frábært teymi með mér og vakna alltaf jafn spennt á morgnana að fara að vinna. Þetta er líka svo fjölbreytt starf þótt auðvitað geti það verið stressandi. En það eru þá bara áskoranir og engin verkefni sem ekki er hægt að leysa,“ segir Bogga jákvæð. Frá því að Bogga fór af stað með Raggagarðinn hefur verið framkvæmt í garðinum fyrir um fimmtíu milljónir króna. Telst þá ekki sjálfboðavinna þeirra Halldórs með. Sem fyrr er frítíminn nýttur í Raggagarð. „Dóri hefur alla tíð staðið með mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Eins og klettur. Dóri hefur líka sett saman öll leiktækin í garðinum ásamt svo mörgu öðru.“ Árlega stendur garðurinn fyrir vinnudegi með gestum og vinum garðsins, en skammt frá Raggagarði er tjaldstæði Súðavíkur. „Vinsælustu myndirnar til að taka Selfie á Vestfjörðum eru við Dynjanda annars vegar en undir Ask og Emblu í Raggagarði hins vegar,“ segir Bogga og brosir. Og ekki vantar viðurkenningarnar fyrir Raggagarðinn. Því Bogga hefur fengið „Sprakki Súðavíkur“ viðurkenninguna frá Súðavíkurhreppi og umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. „Það kom mér líka verulega á óvart að Raggagarður fékk Landstólpann frá Byggðarstofnun. Það hafa færri fengið þá viðurkenningu en fálkaorðuna.“ Í janúar 2023 hlaut Bogga svo fálkaorðuna fyrir Raggagarð. Af því tilefni fóru hún og Halldór til Bessastaða þar sem Bogga tók við viðurkenningunni úr hendi Guðna Th. Jóhannessyni forseta. „Það er nú varla hægt að toppa þetta,“ segir Bogga stolt og þakklát. Sem þó er stundum hissa á þeim jákvæðu áhrifum sem hún hefur. „Eitt sinn var ég í viðtali hjá Jóni Ársæli sem þá var með þætti á Stöð 2. Þegar hann var eitthvað að spyrja mig um sorgina, sagði ég við hann að lífsneisti fólks væri falin í þessum þremur atriðum: Trú, von og kærleiki,“ segir Bogga og bætir við: „Þegar þátturinn var sýndur var ég sem foreldri í skólaferðalagi 10.bekkjar. Þegar síminn hringdi bað ég krakkana um að hafa þögn á meðan ég svaraði. Í símanum var enginn annar en Karl Sigurbjörnsson heitinn biskup, sem hafði orðið svo snortinn af því að heyra hvernig ég talaði um sorgina.“ Eftir símtalið spurðu krakkarnir. „Hver var í símanum?“ „Biskupinn,“ svaraði Bogga. Ef lífið hefur kennt Boggu eitthvað, segir hún það vera að lifa lífinu lifandi. Þar skipti mestu máli að lifa í gleðinni og sátt við alla: Við eigum bara eitt líf. Bogga segist lengi hafa lifað í EF-inu, en síðan áttað sig á því að fortíðinni fær hún ekki breytt. Bogga unir hag sínum vel á Akureyri en finnst alltaf jafn yndislegt að vita hversu mikið Raggagarðurinn í Súðavík gleður fólk sem sækja hann heim. Það er ekki laust við að samtal við Boggu feli í sér smitandi lífsgleði. Enda svo jákvæð í tali og óumræðanlega stolt af mörgu. Ekki síst Raggagarðinum. Bogga segist vita um marga sem einfaldlega leggja leið sína til Súðavíkur sérstaklega til að sjá garðinn. Það finnist henni skemmtilegt að vita. Dóri minn segir reyndar oft við mig að Raggagarður hafi ekki endilega verið ódýrasta sálfræðihjálpin að fá. En hann sé án efa besti garðurinn.“ Snjóflóðin í Súðavík Sorg Geðheilbrigði Súðavíkurhreppur Akureyri Fálkaorðan Tengdar fréttir Krabbameinið sem týndist: „Fyrst sagði ég bara fokk!“ „Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig ég ætti að segja henni það,“ segir Sigurvin Samúelsson þegar hann rifjar upp hvað fór í gegnum hugann á honum, fyrst þegar honum var tilkynnt að hann væri með krabbamein. 28. mars 2024 08:00 „Fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín“ „Ég er fædd og uppalin í þessari borg og áður en Rússarnir komu, hafði ég ekki í eitt augnablik velt því fyrir mér að flytja þaðan. Enda var ég gift, hamingjusöm, átti fjögurra ára strák, er vel menntuð og var í mjög góðu starfi hjá stóru fyrirtæki,“ segir Yulia Zhatkina flóttakona frá Úkraínu. 18. febrúar 2024 10:30 „Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“ „Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur. 11. febrúar 2024 08:01 Nauðgað tveggja til níu ára: „Við þurfum samt líka að trúa strákunum“ „Reyndar veit ég ekki hvers vegna þetta hætti þegar ég var níu ára. Ég hef aldrei spurt hann að því.“ 21. janúar 2024 08:01 „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ „Jú mér finnst ég muna eftir pabba grátandi upp í rúmi. Ég reyndi að hugga hann og segja honum að þeir myndu koma aftur en auðvitað skildi ég þetta ekki,“ segir Hildur Guðmundsdóttir aðspurð um fyrstu æskuminningarnar. 25. desember 2023 08:01 Mest lesið Snúin aftur á Instagram og kynnir nýjan þátt á Netflix Lífið Bjarni sveiflaði servíettunni af gleði Lífið Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Menning Illa vegið að íslenskum bjór Lífið Margir rugli saman áramótaheitum og markmiðum Lífið Barist um arfinn í Borgó Gagnrýni Lúxusíbúð Kára og Erlu til Bandaríkjamanna Lífið Saga sagði já við Sturlu Lífið Glænýtt par á glænýju ári Lífið „Það eru fleiri með köggla en þú“ Lífið Fleiri fréttir Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Skýringar á jólastressinu margvíslegar Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ Sjá meira
Alltaf kölluð Bogga. „Höfuðið var vafið eins og á múmíu, svo illa var það farið. Ég þekkti ekki fötin hans því að hann var fluttur að heiman þegar hann lendir í slysinu. Ég fékk þó að halda í hendina á honum,“ segir Bogga. Það má með sanni segja að Bogga hafi upplifað ótrúlegar raunir. En um leið afrekað meira en við flest hin. Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira. Í dag ætlum við að kynnast Boggu. Eitt vinsælasta trend ferðamanna um Vestfirði er að taka selfie hjá Aski og Emblu, sem taka myndarlega á móti um átján þúsund gestum Raggagarðs í Súðavík á sumrin. Á næsta ári verður garðurinn tuttugu ára en hugmynd Boggu var að búa til útisvæði þar sem börn og fullorðnir gætu leikið sér saman. Að lifa í gleði Ef lífið hefur kennt Boggu eitthvað, segir hún það vera að lifa lífinu lifandi. „Því við eigum bara eitt líf.“ Hún segir miklu skipta að gefa ættingjum og vinum kærleika og vináttu. Dæma hvorki aðra né öfunda. Grasið sé ekkert grænna hinum megin. „Það glíma allir við vandamál einhvern tíma á lífsleiðinni.“ Mestu skipti að lifa í gleðinni og sátt við alla. „Ég lifði lengi í EF-inu. Hvað ef…. En lærði loks að ég get engu breytt úr fortíðinni né því sem ég gerði í gær. Við þurfum að lifa í núinu. Þótt maður lendi í einhverju slæmu. Því við getum alltaf stjórnað því hvernig við tökumst á við hlutina.“ Það er ekki hægt annað en að verða svolítið hugfanginn af því að renna yfir lífshlaupið með Boggu. Því jákvæðnin er þar í fyrirrúmi og ekki að undra að sögur segi að fólk einfaldlega komi oft við á Olís á Akureyri þar sem hún starfar, einfaldlega til að heilsa upp á Boggu. „Ég elska vinnuna mína. Hreinlega hlakka til að vakna alla morgna.“ Bogga fæddist 1.september árið 1964 og á níu systkini. Þar af sjö hálfsystkini. Tvö þeirra eiga meira að segja afmæli sama dag og hún. „Já ég fékk tvisvar sinnum systkini í afmælisgjöf,“ segir Bogga og hlær. Enda frekar fyndið því þessi systkini eru ekkert skyld; börn sitthvors foreldris Boggu. Foreldrar Boggu, Elísa Vilborg Berthelsen og Arnar Skúlason, skildu þegar hún var tveggja ára. Lunga æsku Boggu var í Hvítadal í Dalasýslu, þar sem hún bjó með móður sinni og stjúpa frá fimm til fimmtán ára. „Að alast upp á sveitabæ þýddi að ég var byrjuð að stýra dráttarvél átta ára og lærði fljótt að vinna. Henda böggunum upp á vagna eða mjólka beljur,“ segir Bogga og brosir. Fimmtán ára flutti Bogga til Bolungavíkur til að vinna í fiski. Þar bjó pabbi hennar með sinni konu og börnum en fyrst til að byrja með, bjó Bogga hjá systur sinni. „Í Dölunum var litla vinnu að fá nema í sláturtíð. En það vantaði alltaf fólk í fiskinn.“ Bogga starfaði þó lengst af í matvöruversluninni Einarsbúð, verslun í eigu Einars Guðfinnssonar hf. „Ég er enn kölluð Bogga í Einarsbúð af sumum í Bolungavík,“ segir Bogga kát. Þegar Bogga var ung og ástfangin tveggja barna móðir í Bolungavík hrundi heimurinn þegar Bjarki Vestfjörð barnsfaðir hennar lést í snjóflóði við Óshlíð. Á mynd til vinstri má sjá Bjarka með Sindra, yngri son hans og Boggu í fanginu en lík Bjarka hefur aldrei fundist. Á mynd má líka sjá húsið þeirra í Bolungavík og bræðurna Ragnar og Sindra. Ung og ástfangin í sorg Í Bolungavík varð Bogga ástfangin. „Ég fann rollulykt af einum úr djúpinu sem var þarna í vélvirkjanámi og nældi mér í hann,“ segir Bogga og hlær. Hinn heittelskaði var Gunnar Bjarki Vestfjörð frá Laugarbóli í Ísafjarðardjúpi, alltaf kallaður Bjarki. Bogga og Bjarki eignuðust tvo syni: Ragnar Frey Vestfjörð, fæddan 6. október 1983 og Sindra Vestfjörð, fæddan 25. mars 1988. Ætlunin var að Bjarki myndi síðar taka við búinu af móður sinni, Rögnu á Laugarbóli. Parið var samt búsett næstu árin í Bolungavík og haustið 1988, fór Bjarki að vinna hjá Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði. Á leið til vinnu einn morguninn, lést Bjarki. „Það var alltaf talað um að þegar eitt snjóflóð fellur, fylgir ekki annað á eftir. Það gerðist þó því Bjarki minn og félagi hans, Skarphéðinn Ólafsson voru að keyra á sitthvorum jeppanum þegar þeir komu að flóði sem féll í Óshlíð. Jónmundur Kjartansson lögreglumaður og tónlistarmaður var líka á ferð en hann beið í sínum bíl á meðan Bjarki og Skarphéðinn ákváðu að halda áfram, fullvissir um að ekki kæmi annað flóð.“ Eftir nokkra stund mætir Jónmundur hins vegar heflinum sem var að koma hinum megin að. Sá sem keyrði hann, hafði engan séð. Um viku seinna fannst lík Skarphéðins í sjónum. Bjarki hefur hins vegar aldrei fundist. Seinna samdi Jónmundur lag um þetta slys, sem hann kallaði Lífið. „Eitt það erfiðasta sem ég hef þurft að gera var að fara til sýslumanns og biðja sjálf um að úrskurða Bjarka látinn,“ segir Bogga og útskýrir að ef fólk finnst ekki, sé það ekki skráð látið í kerfinu. Ég hélt ekki að ég myndi lifa það af þegar Bjarki minn dó. Upplifunin var eins og lífið væri byggt úr legókubbum og allt í einu hefði einhver komið og rústað kubbunum þannig að allt hrundi.“ Allt öryggi var farið. „Fólk sagði alls kyns hluti sem það eflaust meinti vel en voru ekki að hjálpa. Eins og „lífið heldur áfram,“ eða „þú nærð þér í nýjan.“ Á þessum tíma var andrúmsloftið svolítið þannig að fólk ætti að bíta á jaxlinn ef eitthvað kom fyrir. Ekki að væla, heldur halda bara áfram.“ Svo ótrúlega vildi til að áður en Bjarki lést, hafði sölumaður sannfært unga parið um að kaupa líftryggingu. „Ég veit ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið með þessa líftryggingu. Með þessum peningum náði ég að borga sonum mínum út, en eftir að ég fékk hann úrskurðaðan látinn urðu þeir erfingjar Bjarka. Með líftryggingunni náði ég að borga þá út og kaupa íbúð í parhúsi.“ Í því húsi bjó einnig ekkja Skarphéðins. „Við gerðum gönguleið á bakvið og urðum góðar vinkonur þó við hefðum alls ekkert verið það fyrst þegar við kynntumst. En það hjálpaði mikið að geta stutt við hvor aðra.“ Í litlum bæjarfélögum er forvitnin þó oft mikil. „Ég átti góða að, fjölskyldu og vinnufélaga sem hjálpuðu því sjálf vildi ég svolítið draga mig inn í skelina. Að vera ekkja í litlu þorpi er samt erfitt. Þar er vel fylgst með því hverjir koma heim til manns og svo framvegis.“ Samfélagið í Súðavík var í mikilli sorg þegar Bogga og Dóri fluttu þangað með Sindra og Ragnar. Í snjóflóðinu í Súðavík misstu Ragnar og Sindri tvær frænkur sínar: Mæðgurnar Bellu Vestfjörð og dóttir hennar Petreu. Hjónin sem áður ráku Shell skálann voru meðal þeirra bæjarbúa sem létust. Samfélag í sorg Í janúar 1991 kynntist Bogga núverandi eiginmanni sínum, Halldóri Má Þórissyni, sem þá bjó á Ísafirði. „Við kynntumst á bílstjóraballi á Ísafirði janúar 1991 og þá var ekki aftur snúið,“ segir Bogga með glampa í augum. Bogga og Halldór byrjuðu að búa saman í Bolungavík en þegar fyrirtækið Einar Guðfinnsson fór á hausinn, fór Bogga að vinna við heimilisþrif og umönnun aldraðra í heimahúsum. Ótti læddist oft að Boggu, ein af afleiðingunum af því hvernig Bjarki dó. „Dóri var að vinna á Ísafirði og keyrði því Óshlíðina alla daga. Ef hann datt úr símasambandi í smá stund, gat ég strax orðið mjög hrædd.“ Bogga og Halldór giftu sig 27. ágúst 1994. Á nýársdag 1995 eignuðust þau tvíburana Þóri Garibalda og Elísu Vilborgu, fyrstu börnin á landinu það árið. Fyrir átti Halldór börnin Andra Má og Birgittu Björk. Sorgin bankaði þó upp á tveimur vikum síðar því þann 16. janúar 1995 féllu mannskæðu snjóflóðin í Súðavík. Meðal þeirra sem létust voru Bella Vestfjörð, systir Bjarka heitins og dóttir hennar Petrea. Bogga segir að það að hafa misst tvö börn og barnabörn hafi gert fyrrum tengdamóður hennar, Rögnu á Laugarbóli, afar erfitt fyrir. Hún hafi lengi verið í mikilli reiði og í sorg sé reiði aldrei af hinu góða. Bogga og Dóri með börnin fjögur: Ragnar, Sindra og tvíburana Þóri Garibalda og Elísu Vilborgu en þau voru fyrstu börn ársins 1995. Ragnar heitinn hjálpaði oft mömmu sinni að gefa tvíburunum því Dóri var alltaf að vinna í söluskálanum í Súðavík. Ekki var um auðugan garð að gresja í atvinnumálum eftir að Einar Guðfinnsson hf. fór á hausinn í Bolungavík. Þegar Skeljungur hafði samband við Halldór og bauð honum að gerast umboðsmaður fyrir stöðinni þeirra í Súðavík, fluttist fjölskyldan þangað. Sem var nokkuð erfitt, því að samfélagið var í svo mikilli sorg. „Ragnar og Sindri minn höfðu til dæmis misst tvær frænkur sínar þarna og hjónin sem höfðu áður rekið Shell létust bæði. Samfélagið var í rúst, svo mikil var sorgin.“ En nú þurfti að sjá fyrir enn stærri fjölskyldu og því ekkert í stöðunni annað en að slá til. „Við tókum við Shell skálanum á sama tíma og ég kom heim með tvíburana. Dóri var lítið heima vegna þess að söluskálinn kostaði viðveru hans. Ég var að vakna á tveggja tíma fresti alla nóttina til að gefa þeim og þar sem þau voru fyrirburar tók það langan tíma,“ segir Bogga og bætir við: „Ég var lítið sofin og í raun eins og einstæð móðir með fjögur börn. Ragnar minn gat þó gefið öðrum tvíburanum pela á meðan ég gaf hinum. Hann hjálpaði svo mikið.“ Þegar kvótinn var seldur úr bænum og togarinn Bessi ásamt togurunum Andra og Kofra hurfu úr bænum til annarra starfa, var söluskálinn hættur að ná endum saman. „Það var nokkur fjöldi verktaka fyrst eftir að snjóflóðin féllu og síðan stóluðum við auðvitað á olíuna sem seld var í skipin. En þegar bæði verktakarnir og skipin voru farin voru tekjurnar nánast engar,“ segir Bogga og bætir við: „Og ekki voru þeir nú hjálpsamir hjá Shell í bænum, sem lögðu til að við myndum vera með tilboð á samlokum til að glæða reksturinn!“ Það er ljóst að Boggu finnst ekki mikið til koma um þessi viðbrögð, en fljótt var það þó annað sem yfirtók allt. Því sunnudaginn 19.ágúst 2001 er Boggu tilkynnt að Ragnar hefði látist í bílslysi um morguninn. Ragnar hafði verið með félögum á rúntinum kvöldið og nóttina áður. Á heimleið losaði hann sig úr bílbeltinu til að leggja sig aftur í. Vinur Ragnars keyrði en sofnaði við stýrið. Halldór hafði verið að keyra leigubíl um nóttina og var einn þeirra sem kom að slysinu þegar lögreglan var að gera að og sjúkrabílar. „Hann vissi strax að hann gæti ekki sagt mér fréttirnar og bað því um prest og lækni með sér heim.“ Heima vakti Halldór Boggu og bað hana um að koma fram. Þegar Bogga hins vegar sá prestinn, lokaði hún hurðinni á herberginu. Dóri minn setti fótinn á milli og kom þannig í veg fyrir að ég næði bara að loka mig inni í herberginu aftur. En málið er að um leið og ég sá prestinn, vissi ég að það væru slæmar fréttir.“ Í minningargrein sem birt var í Morgunblaðinu um Ragnar segir meðal annars: „Elsku Ragnar, þá ertu kominn til föður þíns sem þú þráðir svo heitt og veltum við því fyrir okkur hvort löngu sé búið að gefa í þessu lífsins spili.“ „Ragnar var fimm ára þegar pabbi hans dó og auðvitað hafði föðurmissirinn áhrif á hann. Ragnar var alvörugefinn en ég held að samt að það hafi verið hans karakter frekar en afleiðing af því að missa pabba sinn. Honum fannst mjög erfitt að flytja í Súðavík á sínum tíma, sérstaklega vegna þess að tvær frænkur hans höfðu dáið í snjóflóði þar.“ Bogga fékk ekki að sjá andlit Ragnars þegar hann lést í bílslysi 19.ágúst 2001, svo illa var það farið. Bogga afneitaði því lengi að Ragnar væri dáinn en vaknaði upp við það einn daginn að hún væri farin að líkjast tengdamóður sinni forðum; Rögnu á Laugarbóli. Sem of lengi var reið og beisk eftir að missa börn og barnabarn. Sorg móður Bogga segir stöðuna hafa verið þannig að Skeljungur ætlaði að gera hjónin gjaldþrota með því að hirða af þeim húsið sem þau höfðu byggt í Súðavík. „Sem var fáránlegt því það hvíldu miklar skuldir á því,“ segir Bogga. Að fara í þrot þýddi að fjölskyldan þyrfti að flytja úr Súðavík. Sem skipti Boggu miklu máli að vita, því það hefði þá breytt því hvar hún vildi jarða Ragnar. Bogga gekk því hart eftir því að fá svör og var loksins tjáð af aðila að þau yrðu ekki sett í þrot. „Síðan breyttu þeir því eftir að Ragnar var jarðaður. Ég hafði því samband við Biskupsstofu til að athuga hvort ég fengi að grafa drenginn upp og færa ef þess þyrfti.“ Á endanum fór Skeljungur fram á árangurslaust fjárnám en ekki gjaldþrot. Bogga og Halldór bjuggu því áfram í húsinu, sem síðar var selt með 600 þúsund krónur í plús þegar fjölskyldan flutti einhverjum árum síðar. Til þess að lifa af, segir Bogga hennar leið einfaldlega hafa verið þá að afneita því að Ragnar væri dáinn. Annað hefði verið alltof þungbær sársauki. Líðanin var skelfileg. „Ég var þunglynd og átti erfitt með að fara á fætur, að vinna eða að gera eitthvað.“ Þegar loksins fór að rofa til, segir Bogga að hún hafi í raun fengið eins og hugljómun. „Einn daginn áttaði ég mig á því að ég var að verða eins og tengdamóðir mín: Reið og bitur.“ Uppúr þessu sneri Bogga við blaðinu. „Í fyrsta sinn sem ég játaði fyrir sjálfri mér og öðrum að Ragnar væri dáinn, var þegar ég hélt fyrirlestur sem ég var beðin um í kirkjunni á Ísafirði um það hvernig væri að missa ástvin í umferðaslysi.“ Um sorgina segir Bogga. Margir segja að tíminn lækni öll sár. Ég myndi ekki segja að það eigi við um að missa barn. En lífið verður með tímanum betra.“ Á tæpum tuttugu árum hafa 50 milljónir verið lagðar í Raggagarð fyrir utan sjálfboðastarf Boggu og Dóra. Fimm manna stjórn hefur verið skipuð garðinum með Boggu frá upphafi og hún segir ótrúlega marga hafa lagt garðinum lið í gegnum árin. Raggagarður Bogga fann heilun í ýmsu. Hún fór til dæmis að teikna andlitsteikningar, týna jurtir og nota við listsköpun, bræða vínylplötur og búa til blómavasa, búa til flottar blómaskreytingar og margt fleira. Þá tók hún að sér að standa fyrir bryggjudaga fyrir sveitafélagið. „Þegar Ómar Jónsson sveitastjóri spurði hvort ég væri til í það, spurði ég hann reyndar hvort hann væri ekki í lagi: Að ætla að fá þunglyndustu manneskjuna í bænum til að halda hátíð!“ segir Bogga og nú er stutt í hláturinn. Verkefnið fannst henni þó skemmtilegt. „Þetta var geggjað. Ég fékk sveitastjóra á Vestfjörðum til að keppa sín á milli í að flaka fisk, það var róðrakeppni og fleira og í eitt skiptið reyndi fólk að smygla sér inn á ball í tjaldi sem þó tók 550 manns, svo mikil var eftirsóknin!“ Með Bryggjudagsnefnd vann Bogga að hátíðinni árin 2003, 2004 og 2005. „Þegar ég fékk Papana til að spila trylltist allt!“ Það skemmtilega var að með þessu áttaði Bogga sig líka á því að svo margt gæti hún. „Maður er svo oft lítill í sér og áttar sig ekki á sínum eigin hæfileikum fyrr en maður prófar eitthvað svona.“ Í mörg ár hafði Bogga haft þann draum að búa til fjölskyldugarð sem hefði það að markmiði fyrst og fremst að vera skemmtilegt útileikjasvæði fyrir börn. Bogga sá fyrir sér að svæðið á Nesvegi í Súðavík væri tilvalinn staður. „Því útisvæðið væri bara í notkun á sumrin þegar engin hætta er á snjóflóðum.“ Bogga segir fáa hafa haft trú á að svona garður gæti orðið að veruleika. „Allt sem þarna hefur verið gert hefur verið framkvæmt fyrir sjálfsaflarfé og með sjálfboðavinnu. Ég bakaði kleinur til að fjármagna fyrstu framkvæmdirnar og endaði með að baka um fjögur tonn af kleinum!“ Til að mynda bakaði Bogga kleinur sem skipin voru farin að panta frosnar í pokum til að taka með sér þegar aftur væru lagt úr höfn. Nálægt Raggagarði er minningarlundur um þau sem fórust í snjóflóðinu í Súðavík árið 1995. Garðurinn skiptist í þrjú svæði: Leikjasvæði með leiktæki fyrir alla fjölskylduna. Útivistarsvæði með listaverk, borð og sæti og fleira. Og loks Boggutún þar sem finna má níu körfu frisbívöll. Um átján þúsund manns heimsækja garðinn á sumrin og viðurkennir Bogga að aldrei hafi henni órað fyrir vinsældunum. „Mig dreymdi samt um að þetta yrði garður þar sem foreldrar og börn gætu leikið sér saman og það varð að veruleika.“ Draumurinn er síðan að gera göngustíg og útsýnispall og ljóst að Bogga er hvergi nærri af baki dottin þegar kemur að garðinum. „Ég vona svo innilega að ég geti fengið styrk til að gera göngustíginn, útsýnispall og bæta aðgengi fólks því þá verður framkvæmdum við garðinn í raun lokið,“ segir Bogga en árið 2025 verða tuttugu ár frá því að fyrsta skóflustungan var tekin. Flestir tengja Raggagarðinn við son Boggu sem lést í slysinu. Sem svo sem eðilegt er, því Bogga svo sannarlega tengdi hugmyndina við hann og hans minningu. Nafnið Raggagarður er samt ekkert frá mér komið. Þannig var að ég var að vinna í kirkjugarðinum líka. Síðan sá ég um að klippa tré og snyrta í görðum hjá fólki og síðan var ég að vinna í leikjagarðinum. Og til þess að tvíburarnir vissu hvar ég væri í hvert sinn sagði ég oft við þau: Ég er að fara í kirkjugarðinn, eða í garðinn hjá þessum eða …í Raggagarð. Svona til aðgreiningar.“ Þegar nafnasamkeppni var síðan haldin fyrir garðinn, voru flestar tillögurnar þær að garðurinn héti Raggagarður. „Því auðvitað voru svo margir þá þegar farnir að kalla hann Raggagarð.“ Bogga segir ótalmarga hafa komið að verkefninu og frá upphafi hefur Raggagarður verið skipaður af fimm manna stjórn með Boggu. Jákvæðni Boggu er smitandi enda hringdi biskupinn sjálfur í hana eftir að hafa horft á hana í þætti hjá Jóni Ársæli á Stöð 2 um árið. Bogga elskar vinnuna sína hjá Olís á Akureyri en allar frístundir fara í Raggagarð, sem hlotið hefur margar viðurkenningar. Meðal annars Landstólpa Byggðastofnunnar sem afar fáir hafa hlotið. Nauðarflutningar á Akureyri Árið 2013 segist Bogga hafa verið flutt nauðaflutningum á Akureyri. „Maðurinn minn fékk vinnu hjá Wurths á Akureyri. Tvíburarnir voru orðnir unglingar og vildu fara þangað líka. En ég var ekki sátt. Byrjuð á Raggagarði og líka farin að reka gistiheimili sem ég sá fyrir mér að byggja upp og ná á endanum að reka sem heilsársferðaþjónustu,“ segir Bogga. En auðvitað var ekki annað í stöðunni en að fylgja fjölskyldunni. Á Akureyri tók það Boggu um tvo mánuði að finna vinnu. „Enda allt öðruvísi. Fyrir vestan fór maður bara á milli, heilsaði upp á fólk og spurði hvort það vantaði einhvern. Á Akureyri var mér bara rétt eyðublöð og mér sagt að fylla út einhverja formlega umsókn,“ segir Bogga og lyftir brúnum. Loks rakst Bogga á auglýsingu í Dagskránni um að Olís vantaði starfsmann. „Umboðsmaður Olís tók viðtalið en ég tók samt eftir því að það var alltaf einhver eldri sköllóttur kall með skegg að gjóa augunum að mér. Það reyndist þá vera hann Doddi stöðvastjóri,“ segir Bogga og hlær. Umræddur Doddi, Þorsteinn Stefán Jónsson og umboðsmaðurinn buðu Boggu starfið. „Þeim leist svo vel á mig að í lok viðtalsins spurðu þeir: Getur þú byrjað á morgun?“ Bogga segist afar stolt en líka mjög þakklát fyrir fálkaorðuna sem hún hlaut í janúar árið 2023. Af því tilefni fóru Halldór og Bogga til Bessastaða og segir Bogga Dóra ekkert síður eiga viðurkenninguna skilið: Hann hafi stutt hana í einu og öllu alla tíð. Eins og kletturinn sjálfur. Smitandi lífsgleði Þegar Doddi ákvað að hætta, hringir hann í Boggu og segist leggja til að hún taki við. „Mér leist ekkert á þá hugmynd fyrst,“ segir Bogga og skellihlær. „En síðan fór ég að hugsa: Hvað ef einhver verður ráðinn sem ég kann ekki við? Er þá ekki bara betra að gera þetta sjálf?“ Sem hún stóð vel undir því Doddi var búinn að kenna henni margt. „Ég er líka með svo frábært teymi með mér og vakna alltaf jafn spennt á morgnana að fara að vinna. Þetta er líka svo fjölbreytt starf þótt auðvitað geti það verið stressandi. En það eru þá bara áskoranir og engin verkefni sem ekki er hægt að leysa,“ segir Bogga jákvæð. Frá því að Bogga fór af stað með Raggagarðinn hefur verið framkvæmt í garðinum fyrir um fimmtíu milljónir króna. Telst þá ekki sjálfboðavinna þeirra Halldórs með. Sem fyrr er frítíminn nýttur í Raggagarð. „Dóri hefur alla tíð staðið með mér í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Eins og klettur. Dóri hefur líka sett saman öll leiktækin í garðinum ásamt svo mörgu öðru.“ Árlega stendur garðurinn fyrir vinnudegi með gestum og vinum garðsins, en skammt frá Raggagarði er tjaldstæði Súðavíkur. „Vinsælustu myndirnar til að taka Selfie á Vestfjörðum eru við Dynjanda annars vegar en undir Ask og Emblu í Raggagarði hins vegar,“ segir Bogga og brosir. Og ekki vantar viðurkenningarnar fyrir Raggagarðinn. Því Bogga hefur fengið „Sprakki Súðavíkur“ viðurkenninguna frá Súðavíkurhreppi og umhverfisverðlaun Ferðamálastofu. „Það kom mér líka verulega á óvart að Raggagarður fékk Landstólpann frá Byggðarstofnun. Það hafa færri fengið þá viðurkenningu en fálkaorðuna.“ Í janúar 2023 hlaut Bogga svo fálkaorðuna fyrir Raggagarð. Af því tilefni fóru hún og Halldór til Bessastaða þar sem Bogga tók við viðurkenningunni úr hendi Guðna Th. Jóhannessyni forseta. „Það er nú varla hægt að toppa þetta,“ segir Bogga stolt og þakklát. Sem þó er stundum hissa á þeim jákvæðu áhrifum sem hún hefur. „Eitt sinn var ég í viðtali hjá Jóni Ársæli sem þá var með þætti á Stöð 2. Þegar hann var eitthvað að spyrja mig um sorgina, sagði ég við hann að lífsneisti fólks væri falin í þessum þremur atriðum: Trú, von og kærleiki,“ segir Bogga og bætir við: „Þegar þátturinn var sýndur var ég sem foreldri í skólaferðalagi 10.bekkjar. Þegar síminn hringdi bað ég krakkana um að hafa þögn á meðan ég svaraði. Í símanum var enginn annar en Karl Sigurbjörnsson heitinn biskup, sem hafði orðið svo snortinn af því að heyra hvernig ég talaði um sorgina.“ Eftir símtalið spurðu krakkarnir. „Hver var í símanum?“ „Biskupinn,“ svaraði Bogga. Ef lífið hefur kennt Boggu eitthvað, segir hún það vera að lifa lífinu lifandi. Þar skipti mestu máli að lifa í gleðinni og sátt við alla: Við eigum bara eitt líf. Bogga segist lengi hafa lifað í EF-inu, en síðan áttað sig á því að fortíðinni fær hún ekki breytt. Bogga unir hag sínum vel á Akureyri en finnst alltaf jafn yndislegt að vita hversu mikið Raggagarðurinn í Súðavík gleður fólk sem sækja hann heim. Það er ekki laust við að samtal við Boggu feli í sér smitandi lífsgleði. Enda svo jákvæð í tali og óumræðanlega stolt af mörgu. Ekki síst Raggagarðinum. Bogga segist vita um marga sem einfaldlega leggja leið sína til Súðavíkur sérstaklega til að sjá garðinn. Það finnist henni skemmtilegt að vita. Dóri minn segir reyndar oft við mig að Raggagarður hafi ekki endilega verið ódýrasta sálfræðihjálpin að fá. En hann sé án efa besti garðurinn.“
Snjóflóðin í Súðavík Sorg Geðheilbrigði Súðavíkurhreppur Akureyri Fálkaorðan Tengdar fréttir Krabbameinið sem týndist: „Fyrst sagði ég bara fokk!“ „Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig ég ætti að segja henni það,“ segir Sigurvin Samúelsson þegar hann rifjar upp hvað fór í gegnum hugann á honum, fyrst þegar honum var tilkynnt að hann væri með krabbamein. 28. mars 2024 08:00 „Fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín“ „Ég er fædd og uppalin í þessari borg og áður en Rússarnir komu, hafði ég ekki í eitt augnablik velt því fyrir mér að flytja þaðan. Enda var ég gift, hamingjusöm, átti fjögurra ára strák, er vel menntuð og var í mjög góðu starfi hjá stóru fyrirtæki,“ segir Yulia Zhatkina flóttakona frá Úkraínu. 18. febrúar 2024 10:30 „Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“ „Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur. 11. febrúar 2024 08:01 Nauðgað tveggja til níu ára: „Við þurfum samt líka að trúa strákunum“ „Reyndar veit ég ekki hvers vegna þetta hætti þegar ég var níu ára. Ég hef aldrei spurt hann að því.“ 21. janúar 2024 08:01 „Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ „Jú mér finnst ég muna eftir pabba grátandi upp í rúmi. Ég reyndi að hugga hann og segja honum að þeir myndu koma aftur en auðvitað skildi ég þetta ekki,“ segir Hildur Guðmundsdóttir aðspurð um fyrstu æskuminningarnar. 25. desember 2023 08:01 Mest lesið Snúin aftur á Instagram og kynnir nýjan þátt á Netflix Lífið Bjarni sveiflaði servíettunni af gleði Lífið Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Menning Illa vegið að íslenskum bjór Lífið Margir rugli saman áramótaheitum og markmiðum Lífið Barist um arfinn í Borgó Gagnrýni Lúxusíbúð Kára og Erlu til Bandaríkjamanna Lífið Saga sagði já við Sturlu Lífið Glænýtt par á glænýju ári Lífið „Það eru fleiri með köggla en þú“ Lífið Fleiri fréttir Áramótaheitin: Að sjá fyrir sér útkomuna en passa sig á nokkrum gryfjum Dagbók móður: „Munum við fara fjárhagslega á hausinn?“ Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Skýringar á jólastressinu margvíslegar Öðruvísi líf: „Hryllingurinn var meiri en villtustu hugmyndirnar“ Sjá meira
Krabbameinið sem týndist: „Fyrst sagði ég bara fokk!“ „Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig ég ætti að segja henni það,“ segir Sigurvin Samúelsson þegar hann rifjar upp hvað fór í gegnum hugann á honum, fyrst þegar honum var tilkynnt að hann væri með krabbamein. 28. mars 2024 08:00
„Fólk situr uppi með bankalánin þótt það missi húsin sín“ „Ég er fædd og uppalin í þessari borg og áður en Rússarnir komu, hafði ég ekki í eitt augnablik velt því fyrir mér að flytja þaðan. Enda var ég gift, hamingjusöm, átti fjögurra ára strák, er vel menntuð og var í mjög góðu starfi hjá stóru fyrirtæki,“ segir Yulia Zhatkina flóttakona frá Úkraínu. 18. febrúar 2024 10:30
„Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn“ „Þetta er enginn helvítis félagskvíði, það bara þolir mig enginn. Ég er bara svona. Ég er svona vegna þess að það er meitlað í genin mín“ segir Ásmundur Gunnarsson, sérfræðingur í klínískri sálfræði hjá Kvíðamistöðinni vera dæmi um setningar sem félagskvíðinn segir við okkur. 11. febrúar 2024 08:01
Nauðgað tveggja til níu ára: „Við þurfum samt líka að trúa strákunum“ „Reyndar veit ég ekki hvers vegna þetta hætti þegar ég var níu ára. Ég hef aldrei spurt hann að því.“ 21. janúar 2024 08:01
„Ég var alltaf systir bræðranna sem dóu, dóttir bæjarstjórans eða dóttir ráðherrans“ „Jú mér finnst ég muna eftir pabba grátandi upp í rúmi. Ég reyndi að hugga hann og segja honum að þeir myndu koma aftur en auðvitað skildi ég þetta ekki,“ segir Hildur Guðmundsdóttir aðspurð um fyrstu æskuminningarnar. 25. desember 2023 08:01