Skoðun

Geð­læknir á grensunni – hvað gerir land­læknir?

Vilhjálmur Hjálmarsson skrifar

Geðlæknirinn Óttar Guðmundsson fer enn og aftur stórum í umfjöllun um ADHD lyf. Núverandi stormur á upptök sín í aðsendu bréfi Óttars sem birt var í Læknablaðinu síðasta haust og Kastljós fylgdi eftir með heljarinnar drottningarviðtali. Í báðum tilfellum grautar geðlæknirinn saman stóryrtum fullyrðingum sem standast enga skoðun og bera helst merki vanþekkingar og hroka höfundarins. Sjálfur stakk ég niður penna um þetta hausthret og birti hér undir Skoðun á Vísi 8. september 2023. Þar voru helstu rök Óttars hrakin í sex liðum. Páskahret Óttars skall svo á rétt undir helgi, í boði Eyjunnar, þar sem Óttar er skráður fastur penni.

Manni er eiginlega orða vant við lesturinn. Ætla má að geðlæknirinn telji ADHD orsakast af „[… gífurlegu áreiti] frá hendi netmiðla og alls konar upplýsingaveitna.“ Steininn tekur þó úr þegar hann talar um að „[…] lögleg og niðurgreidd amfetamínneysla [hafi] aukist gífurlega á síðustu árum.“

Ég efast ekki um að Óttar Guðmundsson hafi mörgu góðu áorkað á sínum langa starfsferli sem geðlæknir. Undir það síðasta með langt leiddum fíklum í erfiðri meðferð. Það er hið besta mál. En eitthvað virðist farið að slá úti fyrir lækninum.

Hvernig sæmist geðlækni að tala svona til eigin skjólstæðinga? Að gera lítið úr læknisfræðilega viðurkenndri áskorun sem tugþúsundir Íslendinga búa við! Vanda sem hefur eyðilagt líf margra og svift fólk lífsgæðum. Um leið gerist Óttar sekur um að ala á fordómum varðandi ADHD og lyf, ekki síst gagnvart þeim sama hópi er honum þó ber að þjóna sem læknir og til þess bær sérfræðingur.

Skrif sem þessi eru ekki heilbrigðisstarfsmanni sæmandi. Hvað þá geðlækni með áratuga starfsferil að baki. Svo mikil er rakalaus orrahríðin orðin að ég geri kröfu um að Embætti landlæknis stígi inn, meti faglega hæfni læknisins og endurmeti um leið lyflækningaleyfi Óttars Guðmundssonar.

Höfundur er formaður ADHD samtakanna.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×