Erlent

Á­kærður fyrir að falsa bólusetningarvottorð

Samúel Karl Ólason skrifar
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu. AP/Silvia Izquierdo

Jair Bolsonaro, fyrrverandi forseti Brasilíu, var ákærður í morgun. Hann og sextán aðrir eru sakaðir um að hafa falsað opinber gögn svo þeir virtust hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19. Þetta er í fyrsta sinn sem Bolsonaro er ákærður en hann stendur mögulega frammi fyrir fleiri ákærum á næstunni.

Forsetinn fyrrverandi er sagður skipað aðstoðarmanni sínum að skrá sig og þá tólf ára dóttur Bolsonaro í opinbert kerfi fyrir bólusetta. Þetta á hann að hafa gert í desember 2022, tveimur mánuðum eftir að hann tapaði í forsetakosningum gegn Luiz Inácio Lula da Silva og skömmu áður en hann fór til Bandaríkjanna.

Aðstoðarmaðurinn sjálfur mun hafa viðurkennt þetta en á þessum tíma þurfti hann vottorð fyrir bólusetningu til að komast til Bandaríkjanna, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Bolsonaro hefur verið til rannsóknar um nokkuð skeið.

Sjá einnig: Húsleit gerð á heimili Bolsonaro vegna falsanamáls

Sem forseti gerði Bolsonaro ítrekað lítið úr faraldri Covid og talaði hann einnig opinberlega gegn bóluefnum. Ríkisstjórn hans hafnaði nokkrum boðum frá forsvarsmönnum Pfizer um sölu tuga milljóna skammta af bóluefnum árið 2020.

Ríkissaksóknari Brasilíu mun ákveða hvort ákæran verði notuð í málaferlum gegn Bolsonaro fyrir Hæstarétti Brasilíu. Nokkur önnur mál beinast gegn honum um þessar mundir. Verði hann fundinn sekur um að falsa bólusetningavottorð gæti hann verið dæmdur í allt að tólf ára fangelsi.

Lögmaður Bolsonaro segir að um pólitískar ofsóknir sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×