Erlent

Blindi krókódíllinn Albert fjar­lægður úr sund­laug sinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Hinn þrítugi Albert er sagður blindur og þjást af ýmsum heilsukvillum.
Hinn þrítugi Albert er sagður blindur og þjást af ýmsum heilsukvillum. AP/Umhverfis og dýravernd New York ríkis

Lögregluþjónar í New York-ríki í Bandaríkjunum lögðu í vikunni hald á 340 kílóa krókódíl sem maður í ríkinu hélt ólögleg í bakgarði sínum. Maðurinn hafði útbúið sundlaug fyrir krókódílinn, sem heitir Albert, og sagður hafa leyft fólki og börnum að fara út í vatnið með dýrinu.

Albert er þrjátíu ára gamall og er sagður við slæma heilsu. Hann er meðal annars blindur og hefur verið sendur til manns sem hefur leyfi til að annast krókódíla, þar til varanleg lausn finnst, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Maðurinn sem átti Albert, heitir Tony Cavallaro, og hafði á árum áður leyfi til að eiga dýrið. Hann hafði grafið sundlaug í garðinum sínum fyrir krókódílinn, sem er um 3,4 metra langur, en yfirvöld komust að því árið 2021 að aðstæður í bakgarðinum stæðust ekki öryggisskilyrði samkvæmt reglum.

Því var leyfi mannsins til að halda krókódílinn fellt úr gildi.

Ekki var þó gripið til aðgerða til að fjarlægja dýrið fyrr en í vikunni, eftir að lögregluþjónar fengu ábendingar um að eigandi þess væri að ógna öryggi almennings.

Cavallaro segist í samtali við AP ætla að berjast fyrir því að Albert verði skilað til hans. Hann segist hafa komið fram við dýrið eins og eigið barn og að engum hafi stafað ógn af honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×