Skoðun

Frum­hlaup Sjálf­stæðis­manna í héraði?

Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir skrifar

Við gleðjumst flest yfir því að stórir hópar launafólks á almennum vinnumarkaði hafi skrifað undir kjarasamninga til næstu fjögurra ára með aðkomu aðgerða ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Markmið samningsaðila eru skýr; að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta, auka kaupmátt launafólks og vinna gegn verðbólgu. Vaxtakostnaður hefur áhrif á fjárhag sveitarfélaga og rekstur hins opinbera og heimilin í landinu. Talið er að sveitarfélögin spari um 2,5 milljarða fyrir hvert prósentustig lægri verðbólgu.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs lögðu fram þingsályktunartillögu á síðasta ári, þess efnis að mennta- og barnamálaráðherra skyldi falið að vinna heildstæða stefnu um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir urðu síðar ein af kröfum verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningsgerð. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir hafa áhrif á næringaröryggi nemenda, eru efnahagslegur stuðningur við fjölskyldur, geta stuðlað að bættum námsárangri nemenda og auka félagslegt jafnrétti. Sem félagsleg aðgerð má reikna með að hún kosti sveitarfélögin í heild 1,2 milljarða á ársgrundvelli.

Aðgerðirnar og umbætur munu skila fólkinu í landinu vaxandi velsæld á næstu árum sem vert er að gleðjast yfir. Sjálfstæðisflokkurinn situr í ríkisstjórn, með Vinstrihreyfingunni grænu framboði og Framsóknarflokknum, og tekur þannig þátt í sameiginlegum fjölþættum aðgerðum með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði.

Fjölmargir oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum, eru þó langt í frá glaðir, og rita grein þar sem ákvörðunin um þátttöku sveitarfélaganna er gagnrýnd vegna skorts á samráði. Aðgerðin sem mun ná til ríflega 47.000 grunnskólabarna, er stórt kjaramál fyrir fjölskyldufólk og liður í veruleika kjarasamninga þar sem niðurstöður krefjast þess að samningsaðilar taki sameiginlega ábyrgð til að tryggja sátt á vinnumarkaði. Að horfa fram hjá skyldu allra, líka sveitarfélaga, til að koma að slíkri sátt er frumhlaup af hálfu oddvitanna.

Höfundur er bæjarfulltrúi á Akureyri, varaþingmaður og ritari Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×