Handbolti

Bræðurnir saman í lands­liðinu eftir meiðsli Teits

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Snær Óskarsson hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðið.
Arnór Snær Óskarsson hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðið. Getty/Harry Langer

Arnór Snær Óskarsson hefur verið kallaður inn í A-landsliðið í handbolta sem spilar á næstunni tvo vináttulandsleiki við Grikkland ytra.

Arnór, sem er 24 ára gamall, kemur inn í hópinn vegna meiðsla Teits Arnar Einarssonar, leikmanns Flensburg. Arnór er leikmaður Gummersbach í Þýskalandi, að láni frá Rhein-Neckar Löwen.

Þar með sameinast bræðurnir Arnór og Benedikt Gunnar því sá síðarnefndi, sautján marka hetja Vals úr bikarúrslitaleiknum við ÍBV á laugardag, hafði áður verið kallaður inn í landsliðshópinn. Bræðurnir léku saman með Val þar til að Arnór fór í atvinnumennsku í fyrra.

Mikið um forföll

Benedikt kom inn í hópinn ásamt Andra Má Rúnarssyni úr Leipzig, eftir að þeir Þorsteinn Leó Gunnarsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson drógu sig úr hópnum. 

Áður hafði markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson dregið sig út úr hópnum vegna meiðsla og Ágúst Elí Björgvinsson verið kallaður inn í hans stað.

Þegar hópurinn var valinn þá kom fram að Kristján Örn Kristjánsson væri frá vegna meiðsla, og að Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari hefði ákveðið að gefa Bjarka Má Elíssyni og Aroni Pálmarssyni frí í þessu verkefni landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×