Erlent

Írar þver­neituðu stjórnar­skrár­breytingum um „konuna á heimilinu“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands.
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands. EPA-EFE/JAVIER ETXEZARRETA / PEUE /

Írar neituðu stjórnarskrárbreytingum sem vörðuðu orðalag um „konuna á heimilinu“ og hvernig talað er um fjölskylduna í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.

Tvær breytingar voru á kjörseðlinum á stjórnarskrá þeirra Íra frá árinu 1937. Í henni er meðal annars að finna ákvæði um að konan skuli sinna störfum heimilisins og sé þannig ómissandi fyrir almannahag. Þess vegna skuli írska ríkið sjá til þess að konan sé ekki tilneydd til að sinna störfum utan á almennum vinnumarkaði sem myndi takmarka getu hennar til að sinna heimilisstörfum.

Þar að auki var á kjörseðli breyting á skilgreiningu fjölskyldunnar samkvæmt stjórnarskránni og að henni verði breytt þannig að í stað þess að tala um hjónaband sem grunnstoð fjölskyldunnar verði talað um „varanlegt samband.“

Við talningu var fljótt ljóst að báðar breytingar yrðu felldar og það með talsverðum yfirburðum. 67 prósent kjósenda greiddu atkvæði gegn breytingum á skilgreiningu fjölskyldunnar og heil 74 prósent gegn breytingu á umönnunarákvæðinu.

„Stjórnarskrárbreytingarnar varðandi fjölskyldu og umönnun hafa verið felldar, felldar með miklum mun og góðri kjörsókn,“ sagði Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, þegar ljóst lá fyrir í hvað stefndi.

Hann sagði í ræðu sem hann hélt í Búkarest á miðvikudag að ef breytingarnar yrðu ekki samþykktar væri það skref aftur á bak fyrir Írland og að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslurnar myndu sýna hvaða gildi Írar héldu í hávegum.

Guardian greinir frá því að ríkisstjórnin hafi verið gagnrýnd fyrir ruglandi herferð fyrir atkvæðagreiðsluna. Svipaðar stjórnarskrárbreytingaratkvæðagreiðslur sem haldnar voru árið 2015 og 2018, sem vörðuðu annars vegar réttindi samkynhneigðs fólks til að gifta sig og lögleiðingu þungunarrofs, voru samþykktar með talsverðum mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×