Fótbolti

Harkaði af sér stunguárás og mætti á völlinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jack Albion (t.h.) komst á völlinn þrátt fyrir árásina.
Jack Albion (t.h.) komst á völlinn þrátt fyrir árásina. Mynd/Twitter

Aðdáandi enska fótboltaliðsins Brighton sem varð fyrir stunguárás í Rómarborg í gær lét það ekki stöðva sig frá því að mæta á leik liðsins við Roma í Evrópudeildinni.

Jack Albion heitir stuðningsmaðurinn sem er annar tveggja sem urðu fyrir árás sex grímuklæddra manna. Mennirnir voru svartklæddir með lambúshettur og eiga að hafa læðst aftan að tvímenningunum og stungið þá.

Albion lét það ekki stöðva sig frá því að mæta í stúkuna og styðja sína menn. Eftir að búið var að sauma í hann tíu spor mætti hann galvaskur á völlinn með hækju og hlaut góðar viðtökur stuðningsmanna Brighton líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.

Raunum Albion var þó ekki lokið þar sem stuðningsmenn Brighton þurftu ekki aðeins að finna fyrir rigningu kveikjara, smápeninga, bjórflaska og allskyns smáhluta frá stuðningsmönnum Roma heldur þurftu þeir að horfa upp á liðið sitt tapa leiknum sannfærandi 4-0.

Brighton hefur tilkynnt ólæti stuðningsmannana til UEFA og er það mál til skoðunar. Lögreglan í Róm rannsakar hnífaárasina.

Þetta er í annað sinn í vikunni sem fótboltastuðningsmenn frá Róm eru til vandræða eftir að fótboltabullur tengdar Lazio tóku yfir öldurhús í Munchen og sungu þar fasistasöngva.


Tengdar fréttir

Sungu fasistasöngva á öldurhúsi Hitlers

Stuðningsmenn ítalska liðsins Lazio sungu söngva um Adolf Hitler, Benito Mussolini og sýndu fasistakveðjur í München í gær eftir Meistaradeildarleik liðsins við Bayern München. Borgarráðsfulltrúi í Róm fordæmir hegðun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×