Erlent

Um­fangs­miklar loftskeytaárásir á Húta

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Loftskeytaárásir Húta á skipaumferð um Rauðahafið hafa valdið miklu tjóni.
Loftskeytaárásir Húta á skipaumferð um Rauðahafið hafa valdið miklu tjóni. Sjóher Bandaríkjanna

Bandaríkjamenn og Bretar gerðu með stuðningi fleiri ríkja loftárás á átján skotmörk Húta í Jemen í dag. Er þetta fjórða árásin á Hútana frá því að flugskeytaárásir þeirra hófust í Rauðahafinu í nóvember.

Meðal skotmarkanna voru neðanjarðar vopnabirgi, loftskeytageymslur, loftvarnarkerfi, radarar og þyrla. Var ætlun árásarinnar að draga úr getu Húta til að halda árásum sínum á skipaumferð í Rauðahafinu og Adenflóa áfram.

„Markmið þessa fjölþjóðlega átaks er að vernda okkur sjálf, félaga okkar og bandamenn á svæðinu og gera frjálsa skipaumferð mögulega með því að eyðileggja getu Hútanna til að ógna Bandaríkjaher og heri bandamanna í Rauðahafinu og nærliggjandi sjóleiðum,“ skrifar miðlæg stjórnstöð Bandaríkjahers, CENTCOM, í færslu sem hún birti á samfélagsmiðilinn X í dag.

Munu ekki hika við að grípa til aðgerða

Í færslunni kemur fram að árásirnar hafi átt sér stað um hádegisleytið að staðartíma og að Ástralía, Bahrein, Kanada, Danmörk, Holland og Nýja-Sjáland hafi einnig komið að aðgerðunum.

„Ólöglegar árásir Húta hafa truflað flutning mannúðaraðstoðar til Jemen, skaðað hagkerfi Miðausturlanda og valdið umhverfisspjöllum,“ stendur í færslunni.

„Bandaríkin munu ekki hika við að grípa til aðgerða, eins og þörf krefur, til að verja líf og frjálst flæði viðskipta um eina mikilvægustu hafleið heims,“ var haft eftir Lloyd Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneytisinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×