Erlent

Stúlka lést þegar hola í sandi féll saman

Samúel Karl Ólason skrifar
Plastfata við hlið holunnar þar sem stúlkan varð undir sandinum.
Plastfata við hlið holunnar þar sem stúlkan varð undir sandinum. AP/Mike Stocker

Sjö ára stúlka lét lífið og níu ára bróðir hennar slasaðist þegar hola sem þau voru að grafa á strönd í Flórída féll saman í gær. Fjöldi fólks reyndi að grafa stúlkuna upp með höndunum en holan féll sífellt aftur saman.

Talið er að holan hafi verið allt að eins og hálfs metra djúp þegar hún féll saman en óljóst er hve lengi hin sjö ára gamla Sloan Mattingly var á kafi undir sandinum. Vitni segja það hafa verið nokkra stund.

Myndbönd af vettvangi sýna um tuttugu manns reyna að grafa hana upp en það gekk erfiðlega vegna þess að sandurinn færðist aftur ofan í holuna.

Engir strandverðir eru á umræddri strönd í Fort Lauderdale en fyrstu lögregluþjónarnir mættu á vettvang fjórum mínútum eftir að holan féll saman. Sjúkraflutningamenn komu skömmu síðar.

Í símtölum til Neyðarlínunnar má heyra hvernig fólk lýsir því að erfiðlega gangi að grafa stúlkuna upp úr holunni, því sandurinn falli sífellt ofan í holuna aftur.

Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang tóku þeir við af mönnunum sem voru að reyna að grafa stúlkuna upp og notuðu þeir skóflur til að grafa og borð til að reyna að halda aftur af sandinum. þegar stúlkan náðist upp var hún meðvitundarlaus og ekki með púls.

Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Talskona slökkviliðsins á svæðinu segir foreldra barnanna hafa verið í öngum sínum og að sjúkraflutningamennirnir hafi ekki getað unnið meira þann dag. Aðstæður hafi verið hræðilegar.

Nokkur börn deyja með þessum hætti á ári hverju í Bandaríkjunum, samkvæmt AP fréttaveitunni. Í frétt frá AP segir að þrjú til fimm börn deyi á ári við að grafa holur í sandi á ströndinni, í almenningsgörðum eða sandkössum heima.

Kona sem rekur fyrirtæki sem þjálfar strandverði segir foreldra vanmeta hættuna af því að grafa holur í sandi. Flestir átti sig á því að það geti gerst en fólk átti sig ekki á því hve hratt það gerist og hver erfitt sé að grafa börnin upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×