Skoðun

Ef hval rekur á fjörur manns: Hvar er staður hvalanna í hjörtum Ís­lendinga?

Svava Þorsteinsdóttir skrifar

Hvalir eiga sér djúpar rætur í þjóðarsál okkar Íslendinga. Í þrettán vikur hugsuðum við, þriðja árs nemar í vöruhönnun í Listaháskólanum um hvali, sem var rannsóknarefnið okkar, svo mikið að okkur var byrjað að dreyma þá á nóttunni líka. En eftir því sem við lærðum meira um hvali uppgötvuðum við líka hve lítið við mannfólkið vitum í raun um það sem fer fram undir yfirborði sjávar í samfélögum hvalanna. Mystík umlykur ennþá dýrin sem sögðu skilið við þurrt land fyrir hundruðum milljóna ára og urðu að hvölum sem drottna nú yfir hljóðum heimi hafsins. Eins ólík og við erum innan vöruhönnunarbekksins áttum við öll það sameiginlegt að við fylltumst djúpri lotningu gagnvart þeim.

Við settum upp sýningu sem bar titilinn „Ef hval rekur á fjörur manns.“ Okkur langaði til að miðla áfram þessari lotningu gagnvart hvölum til annarra í gegnum hönnun. Titillinn vísar meðal annars í þau skipti sem hval hefur rekið óvænt á land hér á Íslandi áður fyrr, en þá gat verið um að ræða lífsbjörg fyrir heila byggð. Til þess má einmitt rekja að orðið hvalreki merkir einnig „óvænt stórhapp“ í íslensku tungumáli.

Hvalurinn hefur birst okkur í íslenskum þjóðsögum bæði sem verndari eða bjargvættur og sem hættulegt sjávarskrímsli, alveg eins og náttúran getur oft virst ógnvænleg en einnig verið okkur gjöful. Okkur stafar engin hætta af hvölunum í dag. Þar að auki höfum við nú hvorki þörf né löngun til þess að borða kjöt þeirra. En það má velta því fyrir sér hvernig við getum heiðrað þau skipti sem hvalurinn hefur bjargað okkur. Er ekki það minnsta sem við getum gert að leyfa þeim að vera í friði?

Höfundur er nemi í vöruhönnun, mun sýna verk hennar á Hvalasöngur á laugardaginn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×