Handbolti

FH-ingur í eins leiks bann fyrir oln­boga­skot

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jakob Martin skýtur að marki áður en hann fékk að fjúka af velli.
Jakob Martin skýtur að marki áður en hann fékk að fjúka af velli. vísir / hulda margrét

Jakob Martin Ásgeirsson, handknattleiksmaður FH, var í dag úrskurðaður í eins leiks bann vegna „sérstaklegrar hættulegrar aðgerðar“ í 8-liða úrslitum Powerade bikarsins gegn Haukum. Hann tekur bannið út í næsta leik FH í Olís deildinni, gegn HK þann 24. febrúar. 

Geir Guðmundsson fór í árás og þar setti Jakob Martin olnbogann beint í andlitið á Geir sem hrundi niður í kjölfarið. Þetta gerðist á óheppilegum tíma fyrir FH þar sem gestirnir voru að spila betur og höfðu minnkað muninn niður í eitt mark. Eftir að Jakob Martin fékk rautt spjald gáfu Haukar í og gerðu fimm mörk gegn aðeins einu hjá gestunum. Eftir það var munurinn orðinn of mikill og Haukar unnu að lokum fjögurra marka sigur 33-29.

Skrifaði Andri Már Eggertsson, fréttamaður Vísis og Stöðvar 2 um atvikið. Hann ræddi svo við Sigurstein Arndal, þjálfara FH, eftir leik. Þar sagðist þjálfarinn ekki hafa séð atvikið sjálfur en taldi dapurlegt að Jakob hafi verið rekinn af velli án þess að atvikið væri skoðað aftur á myndbandi. 

Málið rataði inn á borð aganefndar HSÍ sem fundaði í dag og dæmdi Jakob í bann. Í úrskurði nefndarinnar sagði: 

„Jakob Martin Ásgeirsson leikmaður FH hlaut útilokun með skýrslu vegna sérstaklegrar hættulegrar aðgerðar í leik Hauka og FH í Powerade bikar karla þann 12.02.2023. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:6 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×