Innlent

Spyr hvort yfir­stjórn Vega­gerðarinnar höndli „tifandi tíma­sprengju“?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
MixCollage-06-Feb-2024-12-28-PM-1031

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjórinn í Dalabyggð, gefur yfirstjórn Vegagerðarinnar falleinkunn fyrir það hvernig hún hefur haldið á málum varðandi Fossvogsbrú.

Hann segir 8,8 milljarða króna verðmiði brúarsmíðarinnar vekja tilfinningar á borð við undrun og reiði í aðsendri grein á Vísi, ekki síst í ljósi ástands ýmissa brúa og vega víðsvegar um landið. Nálgun Vegagerðarinnar sé „í besta falli galin“.

„Af hverju segi ég þetta? Jú, vegakerfið á Íslandi er allskonar, víða mjög lélegir vegir með tilliti til umferðaröryggis. Víða eru einbreiðar brýr enn þann dag í dag þrátt fyrir fögur fyrirheit um útrýmingu þeirra,“ segir Björn og bendir á að ýmis tækifæri hafi gefist til að fækka brúm við nýlegar framkvæmdir en þau hafi ekki verið nýtt.

Björn segir að sem dæmi séu margar „tifandi tímasprengjur“ á Vestfjarðarvegi; einbreiðar brýr á mikið eknum vegi sem ógni hreinlega umferðaröryggi.

Honum sé hreinlega misboðið.

„Meðferð opinberra fjármuna er að mínu mati óábyrg í þessum viðfangsefni og mætti nefna fleiri dæmi þar sem Vegagerðin mætti íhuga sína forgangsröðun,“ segir Björn og bæti við að Vegagerðin ætti að sýna íbúum á landsbyggðinni meiri virðingu.

„Hrikalegar slysatölur undanfarnar vikur kalla á þá virðingu og stórátak í vegabótum þarf að verða en maður spyr sig hvort núverandi yfirstjórn Vegagerðarinnar sé treystandi til þess að halda utan um það þjóðþrifamál?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×