Innlent

Ekki merki um stór­felldan gagnastuld

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Unnið er að því að koma grunnkerfum skólans í lag.
Unnið er að því að koma grunnkerfum skólans í lag. Vísir/Vilhelm

Það eru ekki merki um stórfelldan gagnastuld þegar tölvuárás var gerð á Háskólann í Reykjavík á föstudaginn. Þó sé ekki hægt að útiloka gagnastuld að hluta.

Samkvæmt tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík miðar vinna við að koma kerfum háskólans aftur af stað og endurheimta gögn vel.

„Netöryggissérfræðingar sem unnið hafa að enduruppbyggingu kerfa HR og endurheimtingu gagna hafa ekki séð ummerki um að önnur gögn en einhver nöfn, kennitölur, netföng og dulkóðuð lykilorð notenda hafi verið afrituð úr kerfum HR,“ kemur fram í tilkynningunni.

Snertir stóran hóp

Gagnastuldurinn þó ekki stórtækur sé snertir stóran hóp nemanda og starfsfólks. Upplýsingar núverandi nemenda, nemenda sem útskrifuðust í október 2023, núverandi starfsfólks og fyrrverandi starfsfólks auk verktaka frá árinu 2008 gæti hafa verið stolið.

Háskólinn vekur athygli á því að þó að lykilorð séu dulkóðið auki árásin líkur á auðkennisþjófnaði og hvetur fólk sem gæti hafa orðið útsett fyrir slíkum þjófnaði að skipta um lykilorð og varast grunsamleg skilaboð og tölvupósta.

Kennsla mun hefjast í skólanum á morgun, mánudaginn 5. febrúar, samkvæmt stundaskrá og stefnt er að því að grunnkerfi skólans verði þá komin upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×