Handbolti

HK-ingar að slíta sig frá fallsvæðinu og Vals­menn völtuðu yfir Sel­foss

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
HK vann mikilvægan sigur í kvöld.
HK vann mikilvægan sigur í kvöld. Vísir/Vilhelm

HK vann mikilvægan eins marks sigur er liðið heimsótti KA í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 26-27. Á sama tíma vann Valur 17 marka risasigur gegn Selfyssingum, 38-21.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var leikur KA og HK jafn og spennandi frá upphafi til enda. Liðin skiptust á að hafa forystuna framan af í fyrri hálfleik, en HK-ingar náðu þriggja marka forskoti í stöðunni 8-11 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.

HK-ingar voru sterkari aðilinn á lokamínútum hálfleiksins og liðið leiddi með sex mörkum þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 10-16.

Gestirnir í HK náðu mest sjö marka forystu í upphafi síðari hálfleiks og leiddu enn með fimm mörkum þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Heimamenn söxuðu hins vegar jafnt og þétt á forskot HK og minnkuðu muninn niður í eitt mark þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Liðin skoruðu hins vegar aðeins eitt mark hvort það sem eftir var og HK vann að lokum nauman eins marks sigur, 26-27.

HK-ingar eru nú með níu stig í níunda sæti deildarinnar, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið. KA-menn sitja sæti ofar með einu stigi meira.

Í leik Vals og Selfoss var hins vegar engin spenna. Valsmenn skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins og settu strax tóninn. Heimamenn höfðu yfirhöndina frá upphafi til enda og leiddu með níu mörkum í hálfleik, 18-9, og unnu að lokum afar sannfærandi 17 marka sigur, 38-21.

Valsmenn sitja nú í öðru sæti Olís-deildarinnar með 22 stig eftir 14 leiki, þremur stigum á eftir toppliði FH. Selfyssingar sitja hins vegar sem fastast á botninum með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×