Viðskipti innlent

Hagnaður Össurar nam um átta milljörðum króna á síðasta ári

Atli Ísleifsson skrifar
Sveinn Sölvason er forstjóri Össurar.
Sveinn Sölvason er forstjóri Össurar. Vísir/Vilhelm

Tekjur Össurar á fjórða ársfjórðungi 2023 námu 210 milljónum Bandaríkjadala, eða 29,2 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar níu prósenta innri vexti. Tekjur á nýliðnu áru námu því 786 milljónum Bandaríkjadala, eða 109,1 milljörðum íslenskra króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem farið er yfir fjórða ársfjórðung á árinu 2023.

Þar segir frá því að á fjórða ársfjórðungi hafi innri vöxtur í sölu á stoðtækjum verið níu prósent, eitt prósent á spelkum og stuðningsvörum, og 12 prósent í þjónustu við sjúklinga. Þá hafi innri vöxtur í sölu á stoðtækjum verið 13 prósent á árinu, þrjú prósent á spelkum og stuðningsvörum, og átta prósent í þjónustu við sjúklinga.

„Hagnaður á fjórða ársfjórðungi jókst um 49% frá fyrra ári og nam 19 milljónum Bandaríkjadala (2,6 milljörðum íslenskra króna) eða 9% af veltu. Hagnaður á árinu jókst um 36% og nam 59 milljónum Bandaríkjadala (8,2 milljörðum íslenskra króna) eða 7% af veltu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 37 milljónum Bandaríkjadala (5,2 milljörðum íslenskra króna) eða 18% af veltu á fjórða ársfjórðungi. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á árinu nam 18% af veltu.

Þann 16. janúar 2024, festi Össur kaup á þýska stoðtækifyrirtækinu FIOR & GENTZ.

Þann 18. janúar 2024, gaf Medicare (sjúkratryggingar ríkisins í Bandaríkjunum) út tillögu sem felur í sér kerfisbreytingar sem munu koma til með að auka verulega aðgengi að hágæða stoðtækjum. Endanleg útfærsla og tímasetningar liggja enn ekki fyrir.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 er 5-8% innri vöxtur og 19-20% EBITDA framlegð að teknu tillit til einskiptisliða,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×