Handbolti

„Ég á helling inni og þarf að gera betur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skýtur að marki Austurríkismanna í leik dagsins.
Ómar Ingi Magnússon skýtur að marki Austurríkismanna í leik dagsins. Vísir/Vilhelm

Ómar Ingi Magnússon var niðurlútur þrátt fyrir tveggja marka sigur Íslands gegn Austurríki í lokaleik íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Evrópumótinu í Þýskalandi þetta árið, 26-24.

Íslenska liðið hefði þurft að vinna með fimm marka mun eða meira til að auka möguleika sína á sæti í umspili fyrir Ólympíuleikana, en liðið kastaði frá sér sex marka forystu sem það hafði í hálfleik. Sigurinn þýðir þó að vonin lifir enn, en liðið þarf nú að treysta á að Ungverjar taki stig af Frökkum.

„Við náttúrulega bara byrjum ekki seinni hálfleikinn af nógu góðum krafti og vorum bara í veseni fyrstu tíu mínúturnar. Ég veit ekki hvað það var,“ sagði Ómar Ingi í leikslok.

„Við vorum bara ekki nógu skarpir fannst mér og eitthvað ragir. Við vorum í góðri stöðu, en náðum ekki að nýta okkur það.“

Hann segir að þrátt fyrir sigurinn séu úrslitin klárlega vonbrigði.

„Við ætluðum okkur klárlega að vinna þetta stærra. Og sérstaklega miðað við hvernig staðan var í hálfleik. Mér fannst við vera töluvert betri og við áttum að sýna það í seinni hálfleik og vinna stærra. Það er alveg klárt að við erum klárlega betri en við náðum ekki að sýna það.“

Þá segir hann einnig að mögulega vanti drápseðli í liðið, enda var þetta ekki í fyrsta sinn sem íslenska liðið er í góðri stöðu í fyrri hálfleik, en gefur svo eftir í þeima seinni.

Klippa: Viðtal við Ómar Inga eftir Austurríkisleikinn

„Það gæti verið. Ég veit ekki hvað það er. En þetta er bara svekkjandi því við vorum í góðri stöðu sem við hefðum átt að nýta betur. Kannski fór þetta eitthvað í hausinn á okkur að vera svona yfir, ég veit það ekki. Við þurfum að skoða það.“

Ómar missti af seinasta leik Íslands vegna veikinda og var enn veikur í gær. Hann segir þó að heilsan hafi verið góð í dag og hann hafi verið klár í slaginn.

„Ég var alveg klár í slaginn. Ég var ekkert það veikur þannig ég var klár núna.“

Hann segir þó að hans eigin frammistaða hafi valdið honum vonbrigðum.

„Ekkert spes. Ég á helling inni og þarf að gera betur, það er alveg klárt. Það eru bara vonbrigði með það að hafa ekki náð að gera þetta almennilega.“

„Ég þarf kannski bara að skoða þetta, en ég komst aldrei í takt við mótið einhvernveginn. Af hverju það er veit ég ekki. Það voru svona skorpur hér og þar en ég var langt frá mínu leveli,“ sagði Ómar að lokum.


Tengdar fréttir

„Við getum alveg kallað þetta vonbrigði“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var vægast sagt svekktur eftir tveggja marka sigur gegn Austurríki í lokaleik liðsins á EM í handbolta í dag. Hann segir að mótið hafi að vissu leyti verið vonbrigði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×