Handbolti

„Við vorum bara góðir í dag“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex flott mörk í dag.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex flott mörk í dag. Vísir/Vilhelm

Óðinn Þór Ríkharðsson átti annan flottan leikinn í röð og nýtti öll sex skotin sín í fimm marka sigri á Króötum á EM í handbolta í dag.

Það var erfitt framan af móti hjá Óðni en í síðustu leikjum hefur hann sýnt hvað hann er öflugur leikmaður.

„Mér fannst við vera að gera marga hluti vel í vörninni og svo erum við að fá góða varða bolta. Hraðaupphlaupin og seinni bylgjan voru að ganga vel. Við erum að slútta vel. Þetta var góður leikur og eins gott að við unnum hann,“ sagði Óðinn Þór í viðtali við Sindra Sverrisson.

„Við fórum bara á fullu inn í þetta og mér fannst það skila sér. Kannski var aukaorka en við spiluðum bara vel,“ sagði Óðinn.

Íslenska liðið lenti í áföllum í leiknum, misstu menn í veikindi fyrir leik og svo meiddist Gísli Þorgeir og Ýmir Örn Gíslason fékk rautt spjald.

„Ég var ekkert mikið að pæla í þessu, ótrúlegt en satt. Þú ert eiginlega bara að minna mig á þetta núna og það segir sitt. Við vorum lítið að spá í þessu. Þetta gerðist bara og auðvitað er það vont. Það er bara næsta sókn og næsta vörn,“ sagði Óðinn. Þetta var fyrsti sigur Íslands á Króatíu á stórmóti.

„Ég var ekki meðvitaður um það að við höfðum ekki unnið þá á stórmóti áður en það er skemmtileg staðreynd. Góður sigur. Við vorum bara góðir í dag, geggjað,“ sagði Óðinn.

„Í hálfleik ætluðum við bara að vera þéttari í vörninni. Bjöggi var geggjaður og var að taka stórar vörslur á risamómentum í leiknum. Eðlilega var það bara lykilatriði í þessu,“ sagði Óðinn.

Íslenska liðið gæti lent í úrslitaleik í lokaleiknum á móti Austurríki í baráttunni um sæti í umspilinu.

„Það er risaleikur en við verðum að sjá hvernig þetta fer. Við ætlum að vinna þann leik ,“ sagði Óðinn.

Klippa: Viðtal við Óðinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×