Fótbolti

Full­komin Flórídaferð hjá karla­lands­liðinu í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson opnaði markareikning sinn með íslenska karlalandsliðinu.
Brynjólfur Andersen Willumsson opnaði markareikning sinn með íslenska karlalandsliðinu. Getty/Peter Zador

Ísland vann 2-0 sigur á Hondúras í nótt í seinni vináttulandsleiknum sínum á æfingaferð landsliðsins til Flórída fylkis í Bandaríkjunum.

Andri Lucas Guðjohnsen og Brynjólfur Andersen Willumsson skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum og komu þau bæði í seinni hálfleiknum.

Íslensku strákarnir unnu 1-0 sigur á Gvatemala í fyrri leiknum og þetta var því fullkomin ferð. Tveir sigrar, þrjú mörk og hreint mark. Ekki slæm byrjun á árinu 2024.

Eftir markalausan fyrri hálfleik dró til tíðinda snemma í þeim seinni þegar íslenska liðið fékk vítaspyrnu á 48. mínútu og úr henni skoraði Andri Lucas Guðjohnsen sitt sjötta A-landsliðsmark í tuttugu leikjum.

Það var síðan Brynjólfur Andersen Willumsson sem skoraði seinna markið af miklu harðfylgi á 58. mínútu, hans fyrsta mark fyrir A-landsliðið, en Brynjólfur lék einmitt sína fyrstu tvo A-landsleiki í þessu janúarverkefni.

Hákon Rafn Valdimarsson varði mark Íslands í fyrri hálfleik en Patrik Sigurður Gunnarsson í þeim síðari. Hákon Rafn var í markinu í fyrri leiknum.

Næsta verkefni karlalandsliðsins er umspilsleikur við Ísrael í mars. Sigurvegarinn úr þeim leik mætir annað hvort Úkraínu eða Bosníu-Hersegóvínu í úrslita-umspilsleik um sæti í lokakeppni EM 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×