Handbolti

Gidsel skuldar Landin bjór fyrir allar stoðsendingarnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin vill vera verðlaunaður með fljótandi veigum fyrir að leggja upp mörk fyrir Mathias Gidsel.
Niklas Landin vill vera verðlaunaður með fljótandi veigum fyrir að leggja upp mörk fyrir Mathias Gidsel. getty/Sebastian Widmann

Það var skiljanlega létt yfir leikmönnum danska karlalandsliðsins í handbolta eftir sigurinn stóra á Portúgal á EM í Þýskalandi í gær.

Danir sýndu hvers þeir eru megnugir gegn Portúgölum sem höfðu unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu. Þeir unnu tíu marka sigur, 37-27, og fara því með tvö stig inn í milliriðla.

Portúgalir spiluðu ítrekað með sjö sóknarmenn en Danir voru duglegir að refsa þeim með því að skora í tómt markið. Mathias Gidsel fór þar fremstur í flokki en hann skoraði alls ellefu mörk í leiknum, þar af nokkur í tómt mark Portúgals.

„Það hlýtur að hafa verið pirrandi fyrir Portúgal að berjast af öllum mætti en síðan hleypur bara lítill Dani og skorar í tómt markið,“ sagði Gidsel eftir leikinn í Ólympíuhöllinni í München, þeirri sömu og leikir Íslands í C-riðli fara fram í.

Niklas Landin, markvörður og fyrirliði Dana, varði ekki bara sextán skot (39 prósent) heldur átti hann þátt í fjölmörgum mörkum danska liðsins með því að vera snöggur að koma boltanum í leik. 

„Niklas er ekki bara einn af þeim bestu í heimi þegar kemur að því að standa í markinu heldur einnig að kasta boltanum á miðjuna,“ sagði Gidsel og bætti við að Landin vilji meina að hann skuldi sér bjór fyrir allar stoðsendingarnar.

Gidsel skoraði líka nokkur mörk eftir sendingar frá línumanninum Magnusi Saugstrup.

„Þetta var stoðsendingakeppni milli Niklas og Saugstrup. En það var góð stemmning í liðinu,“ sagði Gidsel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×