Sport

Atlanta Falcons ræddi við Bill Belichick

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Kraft, eigandi New England Patriots, þakkar Bill Belichick fyrir á kveðjublaðamannafundi þjálfarans.
Robert Kraft, eigandi New England Patriots, þakkar Bill Belichick fyrir á kveðjublaðamannafundi þjálfarans. Getty/Maddie Meyer

Goðsögnin Bill Belichick hætti sem þjálfari New England Patriots á dögunum eftir 24 tímabil með NFL liðinu. Nú hefur hann farið í sitt fyrsta atvinnuviðtal.

Atlanta Falcons liðið rak þjálfara sinn eftir tímabilið og er því að leita sér að nýjum þjálfara.

Fyrsta viðtal Belichick í leit að nýju starfi var við forráðamenn Atlanta Falcons en félagið sagði frá þessu í gær.

Belichick er orðinn 71 árs gamall en hann gerði Patriots sex sinnum að NFL-meisturum sem er met.

Einn af þessum sigrum kom einmitt í úrslitaleik á móti Atlanta Falcons þar sem New England liðið lenti 28-3 undir en kom til baka og vann 34-28 í framlengingu.

Arthur Smith þjálfaði Falcons liðið á síðustu leiktíð en þurfti að taka pokann sinn nokkrum klukkutímum eftir síðasta leik. Hann þótti ekki nýta hæfileikaríka leikmenn sinn rétt. Atlanta liðið er spennandi kostur fyrir hæfan þjálfara og því þarf það ekki að koma á óvart að Belichick væri tilbúinn í viðtal.

Arthur Blank, eigandi Atlanta Falcons og framkvæmdastjórinn Rich McKay fara fyrir þjálfaraleitinni. Það er stóra spurningin hvort þeir vilji sækja þjálfara í gamla skólann eða finna sér ungan þjálfara sem gæti verið lengi með liðið.

Belichick fór vissulega í viðtal en hvort að hann eða félagið vilji semja er önnur saga.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×