Handbolti

Fyrsta stig Fær­eyja á stórmóti í hús

Siggeir Ævarsson skrifar
Færeyingar fagna
Færeyingar fagna EPA-EFE/CLEMENS BILAN

Færeyingar skráðu sig í sögubækurnar í kvöld þegar liðið náði jafntefli gegn Noregi á Evrópumeistarmótinu í handbolta en þetta er fyrsti stigið sem liðið nælir sér í á stórmóti. Boðið var upp á gríðarlega dramtík á lokamínútunum.

Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda þar sem annað hvort var jafn á öllum tölum eða Norðmenn náðu upp smá forskoti en alltaf komu Færeyingar til baka.

Þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan 23-23 en þá kom góður kafli frá Norðmönnum sem breyttu stöðunni í 23-26. Færeyingar náðu að skora og voru í vörn þegar tæp mínúta var til leiksloka og allt útlit fyrir að Norðmenn myndu sigla þessu heim.

Þá tók við ótrúlegur kafli þar sem Færeyingar voru snöggir að skora og stálu síðan boltanum af Harald Reinkind strax í kjölfarið þegar Norðmenn tóku miðju og ellefu sekúndur á klukkunni. Færeyingar ætluðu að bruna í sókn en Reinkind braut á Elias Ellefsen frá Skipagötu og rændi hann þar með augljósu marktækifæri.

Elias fór sjálfur á vítalínuna og skoraði af öryggi. Fjórar sekúndur voru eftir af leiktímanum en það dugði Norðmönnum ekki til að skora aftur og Færeyingar náðu í sögulegt jafntefli á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×