Handbolti

Jafn­tefli gegn Serbum í fyrsta leik gæti vitað á gott

Smári Jökull Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eru núverandi landsliðsþjálfarar íslenska landsliðsins en þeir voru báðir í liðinu sem vann brons árið 2010 og gerði jafntefli við Serba í fyrsta leik mótsins.
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eru núverandi landsliðsþjálfarar íslenska landsliðsins en þeir voru báðir í liðinu sem vann brons árið 2010 og gerði jafntefli við Serba í fyrsta leik mótsins. Vísir/Vilhelm

Ísland og Serbía gerðu jafntefli í fyrsta leik liðanna á Evrópumótinu í handknattleik í gær. Síðast þegar það gerðist náði Ísland sínum besta árangri á EM í sögunni.

Leikur Íslands og Serbíu í Munchen í gær var vægast sagt spennandi. Ísland var þremur mörkum undir þegar innan við tvær mínútur voru eftir en náðu samt sem áður að tryggja sér 27-27 jafntefli og gríðarlega mikilvægt stig í riðlinum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ísland leikur gegn Serbum í fyrsta leik á Evrópumóti. Árið 2010 þegar mótið fór fram í Austurríki mættust liðin í Linz og þar varð einnig jafntefli. Lokatölur þá 29-29. Í næsta leik á eftir gerði Ísland einnig jafntefli. Þá mætti Ísland heimaliði austurríkismanna og missti niður öruggt forskot í lokin, ekki ólíkt því sem gerðist í gær hjá Serbum.

Eftir þetta komst Ísland hins vegar á beinu brautina. Liðið vann frábæran 27-22 sigur á Dönum í leik þrjú og eftir jafntefli gegn Króötum og sigra á Rússum og Norðmönnum í milliriðlinum var Ísland komið í undanúrslit mótsins.

Þrátt fyrir átta marka tap gegn Frökkum í undanúrslitaleiknum náði liðið vopnum sínum fyrir bronsleikinn gegn Pólverjum og vann sín fyrstu verðlaun á stórmóti. Fyrir utan sigurinn er bronsleiksins einna helst minnst fyrir ótrúlegan varnarleik Alexander Petersson sem stal boltanum af leikmanni pólska liðsins í miðju hraðaupphlaupi.

Tveir núverandi leikmenn íslenska liðsins voru í liðinu sem vann bronsið í Austurríki. Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson var þá á sínu fyrsta stórmóti og var meðal annars markahæstur í undanúrslitaleiknum gegn Frökkum. Þá var Björgvin Páll Gústavsson í marki íslenska liðsins líkt og nú.

Þar að auki voru núverandi þjálfarar Íslands í leikmannahópi liðsins árið 2010. Arnór Atlason aðstoðarþjálfari varð þá í fjórða sæti yfir markahæstu menn mótsins með 39 mörk og Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari kom ekki langt þar á eftir með 36 mörk.

Næsti leikur íslenska liðsins er á morgun gegn Svartfellingum og lokaleikur riðilsins gegn Ungverjum á þriðjudag. Vonandi veit jafntefli gegn Serbíu í fyrsta leik á Evrópumóti á gott, líkt og gerðist árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×