Handbolti

„Hef verið að bíða eftir sím­talinu um að mamma sé dáin“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Björgvin Páll er einlægur í hlaðvarpinu sínu.
Björgvin Páll er einlægur í hlaðvarpinu sínu. vísir/vilhelm

Það er margt sem fer í gegnum huga Björgvins Páls Gústavssonar landsliðsmarkvarðar er hann undirbýr sig fyrir landsleik.

Björgvin Páll hleypir fólki nær sér en áður í þríleiknum „Ekki bara leikur“ sem er birtur á Vísi og í hlaðvarpinu Besta sætið. Fyrsti hluti fór í loftið í morgun.

„Þegar ég var átta ára dreymdi mig um að vera frægur. Inni á BUGL. Ef að ég yrði frægur myndi fólk hlusta á mig. Þá get ég sagt mína sögu. Að vera frægur breytist hratt í að vilja vera fyrirmynd. Fyrirmynd og hjálpa öðrum að líða betur,“ segir Björgvin Páll meðal annars í fyrsta þættinum.

„Sjálfum líður mér ekkert alltaf vel en það er ekki tími til að hugsa um það núna. Mér er líka illt en það er heldur ekki tími til að hugsa um það núna. Ég er að fara að keppa landsleik númer 247.“

Björgvin Páll er opinskár með hugsanir sínar og tilfinningar.

„Mamma hefur átt mjög erfiða ævi. Það á engum að þurfa að líða svona illa. Ég er að þessu öllu fyrir mömmu líka. Ég hef einhvern veginn verið að bíða eftir símtalinu um að mamma sé dáin síðan ég var mjög lítill. Mamma er stödd á sínu HM. Hún er ekki að berjast við aðrar þjóðir í handbolta heldur við krabbamein.“

Hér að neðan má hlusta á þáttinn en hann er einnig aðgengilegur á öllum hlaðvarpsveitum hjá hlaðvarpinu Besta sætið. Hér má hlusta á Spotify. Næsti þáttur fer í loftið klukkan níu í fyrramálið.

Klippa: Ekki bara leikur. Fyrsti hluti: Fyrir leik



Fleiri fréttir

Sjá meira


×