Innlent

Skip Sam­herja fékk heims­styrjaldar­sprengju í trollið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Björg EA við bryggju á Akureyri annars vegar og hins vegar skipverji að skoða sprengjubrotið.
Björg EA við bryggju á Akureyri annars vegar og hins vegar skipverji að skoða sprengjubrotið. Samherji

Ísfisktogarinn Björg EA 7, sem er gerður út af Samherja, fékk í gær hluta úr breskri sprengju í veiðafæri sín þegar skipið var á veiðum á Rifsbanka, norður af Melrakkasléttu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samherja, en þar segir að haft hafi verið samband við Landhelgisgæsluna sem staðfesti að brotið væri úr sprengju, nánar tiltekið úr MARK XVII sem Bretar notuðu í seinni heimsstyrjöldinni.

Því er lýst að stýrimaður hafi orðið var við torkennilegan hlut í trollinu og að ákveðið hafi verið að hífa inn veiðafærinn.

Sprengjubrotið sem er úr MARK XVII sprengju Breta.Samherji

„Við áttuðum okkur fljótlega á því að þetta væri hluti úr sprengju og settum okkur því í samband við Landhelgisgæsluna, sem ber að gera við slíkar aðstæður. Sérfræðingar þar úrskurðuðu strax að um væri að ræða hluta af MARK XVIII sprengju sem breski herinn beitti í síðari heimsstyrjöldinni. Við sendum Landhelgisgæslunni myndir af sprengjubrotinu og nákvæma staðsetningu á því hvar það kom í veiðarfærin,“ er haft eftir Árna Rúnari, skipstjóra Bjargar.

„Það er annars ekkert grín að fá þessar gömlu sprengjur í veiðarfærin og um borð, lykilatriðið er hreyfa alls ekkert við þeim og allra síst að skila þeim aftur í hafið. Sem betur fer var þetta einungis hluti úr sprengju og engin hætta á ferðum.“

Einnig er haft eftir Árna að grínast hafi verið með atvikið, sérstaklega þar sem þeir fundu sprengjubrotið á vinsælli togaraleið.

„Engu að síður er þetta mjög óæskilegt og getur hæglega skemmt veiðarfærin,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×