Erlent

H5N1 sögð hafa valdið dauða ís­bjarnar í Alaska

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
H5N1 hefur nú greinst póla á milli.
H5N1 hefur nú greinst póla á milli. AP/Sean Kilpatrick

Ísbjörn sem fannst dauður nærri Utqiagvik í norðurhluta Alaska reyndist smitaður af H5N1, sem hefur valdið dauða milljóna fugla og þúsunda spendýra frá árinu 2021.

Yfirvöld í Alaska staðfestu dauðsfall ísbjarnarins af völdum veirunnar í desember síðastliðnum en talið er líklegt að björninn hafi smitast með því að éta dauða fugla. Yfirvöld útiloka ekki að fleiri birnir hafi drepist af völdum veirunnar en erfitt sé að fullyrða um það þar sem heimkynni þeirra séu fjarri mannabyggðum.

H5N1 hefur fundist í öðrum bjarnategundum og í Alaska hefur veiran einnig fundist í refum, skallaörnum og ritum á síðastliðnum mánuðum. 

Diana Bell, prófessor emeritus við University of Anglia, segir hryllilegt að vita til þess að veiran hafi valdið dauðsföllum allt frá Suðurskautslandinu og að Norðurpólnum. Þetta komi hins vegar ekki á óvart; sjúkdómurinn hafi nú greinst hjá fjölda tegunda og vart sé lengur hægt að tala um fuglasjúkdóm.

Vísindamenn hafa varað við því að veiran gæti valdið einum mestu umhverfishörmungum nútímans ef hún berst í mörgæsastofna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×