Skoðun

Hve­nær ætlum við að gera eitt­hvað fyrir einka­bílinn?

Björn Teitsson skrifar

Fyrir ekki svo löngu var ég að spjalla við samstarfsfélaga minn sem hafði mikið að segja um aðförina að einkabílnum. Hún væri raunar svo slæm að hann hafði hreinlega gefist upp. Það var þrengt svo mjög að bílnum, að hann ákvað að losa sig við hann fyrir fullt og allt og taka upp bíllausan lífsstíl, eða því sem næst. Í dag nýtur hann þess að nota okkar frábæru almenningssamgöngur, sem eru ávallt innan seilingar með frábærri tíðni, góðum akstursleiðum og glænýjum, rafvæddum vagnaflota.

Bíddu, ha?

Ef þú ert enn að lesa ertu væntanlega búinn að átta þig á að öll fyrsta efnisgreinin var uppspuni frá rótum. Ég þekki engan sem hefur þótt vera svo mikil aðför að einkabílum að viðkomandi hafi hætt að keyra og losað sig við bílinn sinn. Ekki sálu. Aftur á móti þekki ég fullt af fólki sem var áður bíllaust en taldi sig síðan neyðast til að kaupa bíl. Flest höfum við heyrt setningar á borð við: „Eftir að við eignuðumst barn þá var bara ekkert annað í stöðunni.“ Eða: „Ég reyndi að nota strætó en hann var óáreiðanlegur, ferðir féllu niður og stundum var vagninn svo fullur að hann ók framhjá mér.“ Eða: „Ég var alltaf á hjóli en svo var ófært í tvo mánuði á reiðhjólastígum. Það var mokað hvern einasta morgun fyrir bílaumferð en ekki fyrir reiðhjól.“ Þessu var reyndar lýst mjög vel af blaðamanni Morgunblaðsins nú á haustmánuðum 2023. Skúli Halldórsson er ungur maður sem þarf, starfs síns vegna, að komast í Hádegismóa um það bil fimm sinnum í viku. Hann reyndi og reyndi að vera bíllaus en samfélagið eins og við rekum það var ekki tilbúið til að gefa honum þann valmöguleika. Hann gafst upp og keypti sér bíl. Morgunblaðið sagði síðan frá öðrum ungum manni í desember, Halldóri Loga Sigurðssyni, sem hefur verið bíllaus alla ævi en ætlar nú að fá sér bílpróf. Ég skil þessa menn mjög vel. Ég hef reyndar verið með bílpróf í 25 ár en í ár keypti ég mér Volvo. Ég neyddist til þess, við eignuðumst barn og það var ekkert annað í stöðunni.

Stuðningur við almenningssamgöngur aldrei minni

Fjársvelt almenningssamgöngukerfi er ekki eina ástæðan fyrir því að við sjáum okkur flest tilneydd til að aka bílum. En þar liggja án vafa tækifæri til að gera mun betur. Árið 2012 var til að mynda ráðist í átak um að fjölga farþegum Strætó. Stjórn SSH og Vegagerðin, fyrir hönd innanríkisráðuneytis, undirrituðu samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni þar stefnt var að því að auka hlutdeild almenningssamgangna um helming, þá sérstaklega til að draga úr aukningu á hlutdeild einkabílsins í umferðinni. Átti framlag ríkisins að vera 900 milljónir árlega miðað við verðlag 2012 en því miður hefur ríkið aðeins staðið við sinn enda þess samnings árið 2013, en annars fór framlagið stiglækkandi miðað við verðlag 2012. Á sama tíma var aftur á móti farið í ríflegar skattaívilnanir til að fjölga bílum. Á síðasta áratug hefur um 30 milljörðum verið eytt (ekki varið) í niðurgreiðslur á rafbílum en þiggjendur þessara kjarabóta hafa helst verið í efri lögum samfélagsins. Þetta er um fjórum sinnum hærri upphæð en hefur verið varið í almenningssamgöngur af hendi ríkisins. En hvernig lýsir þetta tækifærum til að gera betur? Jú, því þetta litla framlag virkaði. Það skilaði sér í stórauknum farþegafjölda, sem jókst á tímabilinu 2011-2017 um 22%. Á árinu 2019 var heildarfjöldi ferða kominn yfir 120.000 ferðir, úr tæplega 80.000 ferðum árið 2006, eða úr árlegum 40,5 ferðum á hvern íbúa HBS yfir í 53,4 ferðir. Þetta er auðvitað lítið samanborið við tölur frá 7. áratug síðustu aldar þegar hver íbúi höfuðborgarsvæðisins fór í um og yfir 250 strætóferðir á hverju ári. En það þótti ekkert nema sjálfsagt þá. En af hverju erum við þá að hvetja fólk með ríflegum styrkjum til að kaupa bíla frekar en að bæta almenningssamgöngukerfið okkar, sem þó svona margt fólk notar? Viljum við virkilega fjölga bílum enn frekar í umferðinni?

Umferð aldrei meiri, bílar aldrei fleiri

Árið 2012 voru skráðir fólksbílar á Íslandi 209 þúsund talsins. Í lok árs 2022 voru þeir orðnir 287 þúsund. Þetta er aukning upp á 37,3 prósent. Á ekki nema 10 árum (fólksfjölgun á sama tíma var 17,7 prósent til samanburðar). Og þá er rétt að hafa í huga þegar við berjum okkur á brjóst við „heimsmet-fyrir-utan-Norðmenn“ við nýskráningar rafbíla að þeir eru ekki nema 17 þúsund af þessum 287 þúsund. Mun fleiri bílar sem eru knúnir áfram af jarðefnaeldsneyti eru á götunni nú, heldur en fyrir áratug. Það eru varla nein orku-„skipti“, nema einhverju sé þá raunverulega skipt út. Það eru engin skipti ef bílum heldur sífellt áfram að fjölga.

En af hverju erum við þá að hvetja fólk með ríflegum styrkjum til að kaupa bíla frekar en að bæta almenningssamgöngukerfið okkar, sem þó svona margt fólk notar? Viljum við virkilega fjölga bílum enn frekar í umferðinni? Samkvæmt talningum hjá Vegagerðinni í nóvember, hefur bílaumferð aldrei verið meiri en hún er nú, eða 183.772 ferðir samanlagt á „lykilmælisniðum“, sem eru ferðir í Ártúnsbrekku, á Reykjanesbraut við Dalveg og á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar. Árið 2012 var heildarsumma ferða á þessum lykilmælisniðum 129.557 ferðir. Þetta er aukning um 41,8 prósent. Á ekki nema 10 árum. Og um þetta snýst málið. Hvað er það sem er fyrir þér í umferðinni? Aðrir bílar. Hvað er fyrir bílastæðinu sem þig langar að leggja í? Annar bíll.

Má ekki neitt?

Ég sá tik-tok myndskeið fyrir ekki svo löngu, sem var frá einum af bílhönnuðum Polestar. Nú veit ég að sú bílategund er einhvers konar undirtegund Volvo, en gaurinn í myndskeiðinu var pottþétt Dani, hann talaði allavega með þannig hreim. Hann sagði eitthvað á þessa leið (lesist með „Danglish“-hreim): „If people who are driving home from work, do not take a detour, to enjoy driving our car, we, as car designers, have done something wrong.“ Augljóslega sprakk ég úr hlátri. Ímyndaði mér sjálfan mig, vera búinn að aka frá Borgartúni í Grafarvog að sækja dóttur mína til dagmömmu (því hún er ekki enn komin á leikskóla, næstum tveggja ára gömul, takk, Reykjavík), vera loksins að koma heim til eiga smá gæðastund áður en það þarf að elda kvöldmat, nema segja allt í einu „je, min skat. Nu tager vi en lidt detour, fordi din far elsker at blive i trafiken og det er meget sjovt at köre bil.“ Gott og vel, við erum öll ólík. Og eitthvað fólk er kannski á þessum stað í lífinu, langar að taka smá „detour“ og einfaldlega keyra bíl. Og hvað á þá að gera, neyða þetta fólk úr bílunum sínum? Alls ekki. Fólk sem vill endilega aka bíl, má gjöra svo vel og gera einmitt það. Þannig á það að vera. En til að gera umferð einkabíla miklu miklu betri, þá verðum við að hætta að neyða fólkið í bíl, sem vill alls ekki vera á bíl. Það er það eina sem þarf.

Á árunum 2019 til 2020 lagði Maskína könnun fyrir Reykvíkinga þar sem ferðavenjur þeirra voru skoðaðar. Í ljós komu svipaðar niðurstöður og höfðu komið í ljós í sambærilegum en yfirgripsmeiri könnunum sem hafa verið gerðar reglulega á höfuðborgarsvæðinu síðan árið 2002 og eru nú framkvæmdar af innviðaráðuneytis. Niðurstöðurnar voru að um 75% íbúa ferðuðust með einkabíl, annað hvort sem bílstjóri eða farþegi. En í þessum könnunum var spurt lykilspurningar, sem skiptir öllu máli. Um hvað fólk vill. Þegar spurt var, hvernig myndirðu helst vilja ferðast til og frá vinnu/skóla, væru aðstæður til þess ásættanlegar, breyttist svarið hratt. Í ljós kom að rétt um 40% vildu þá vera helst á bíl, annað hvort sem bílstjóri eða farþegi. Þetta þýðir að tæplega helmingur þeirra bílstjóra sem við sjáum í umferðinni á morgnana, myndu helst ekki vilja vera á bíl. Getið þið ímyndað ykkur hvað það væri þægilegt að keyra bíl á höfuðborgarsvæðinu ef umferðin myndi skyndilega minnka um helming alla daga?

Jú, það má allt

Og hvað er þá til bragðs að taka? Við getum stutt raunverulega við almenningssamgöngukerfið, þó það væri ekki nema bara að sama marki og við höfum stutt við rafbílavæðingu með skattaívilnunum. Við getum sett lög um lágmarksþjónustustig almenningssamgangna, þannig að tryggt væri að við fengjum boðlega þjónustu. Þetta þyrfti ekkert að vera loforð um að hafa allt jafn næs og í Kaupmannahöfn eða Osló, segjum bara sambærilegt við Bergen eða Norrköping, það er feikinóg. Við gætum flýtt fyrir framkvæmdum Borgarlínu og fært stofnleiðir Strætó í sérrými og þar með stóraukið hlutfall íbúa á HBS sem væru í námunda við hágæðaalmenningssamgöngur. Og í guðanna bænum, lögum þetta greiðslukerfi strax. Við gætum bætt vetrarþjónustu á hjóla-og göngustígum fyrir fólk sem kýs þá ferðamáta og við gætum hvatt lögregluna til að láta meira til sín taka gagnvart hjólaþjófnuðum eða bílstjórum sem leggja bílum upp á gangstéttir eða hjólastíga. Hægt væri að bjóða upp á ríflegri styrki til launafólks fyrir að ferðast á vistvænan máta og það væri ansi skemmtilegt að sjá endurnýjaðan strætisvagnaflota sem fyrst. Strætóskýli eru víða léleg eða vantar alveg yfirhöfuð, fullt af tækifærum þar – jafnvel til að hafa hönnunarsamkeppni til að styrkja íslenska iðnhönnun eins og áður var gert. Þetta er aðeins brotabrot af því sem hægt að gera til að færa fólki raunverulegt frelsi, frelsi um val á samgöngumáta, frelsi sem er hreinlega ekki til staðar eins og sakir standa. Allar þessar upptöldu aðgerðir eru mun ódýrari og skilvirkari en að fjölga sífellt dýrum umferðarmannvirkjum, fjölga þannig bílum og auka þar með umferðartafir, stress og óhamingju. Það að fækkun bíla á götum úti sé einnig það besta sem við getum gert fyrir umhverfið er síðan ágætis bónus. Þannig ég spyr aftur, á endalaust að fjölga bílum – og gera umferðina sífellt verri? Eða á loksins að gera eitthvað fyrir einkabílinn?

Höfundur er borgarfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×