Erlent

Eldur í toppi turns reyndist vera net

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Maður var handtekinn fyrir óspektir í kjölfarið.
Maður var handtekinn fyrir óspektir í kjölfarið. EPA/Peter Powell

Maður hefur verið handtekinn á Englandi eftir að tilkynning um eldsvoða í hinum fræga Blackpool-turni reyndist vera appelsínugult net að blakta í vindinum.

Guardian greinir frá því að slökkviliðsteymi hafi mætt á vettvang eftir tilkynningu um eldsvoða á útsýnispalli turnsins. Um tveimur klukkustundum síðar kom í ljós að ekki hafi verið um eldsvoða að ræða heldur blakandi net appelsínugult á litinn.

Í færslu á Facebook sagði lögreglan í Lancashire að toppur turnsins hefði verið lokaður vegna viðgerða og væri því illfær. Einnig að þyrlu hefði verið flogið yfir turninn og staðfest að enginn eldur væri.

„Við getum staðfest að það sem sést er appelsínugult net. Einn maður hefur verið handtekinn fyrir óspektir og verið er að flytja hann í gæsluvarðhald,“ skrifar þarlend lögregla í tilkynningu sinni.

Blackpool-turn, sem var vígður árið 1894, er eitt frægasta kennileiti Englands og gríðarlega vinsæll áfangastaður ferðamanna. Í turninum er sjávarlífssafn, dýflissa, vaxmyndasafn Madame Tussauds og tívolí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×