Innlent

„Að­eins eitt gat af völdum flug­elda og húsin hrein­lega springa“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Guðmundur Steinar segir skaðann af flugeldum geta numið hundruðum milljóna
Guðmundur Steinar segir skaðann af flugeldum geta numið hundruðum milljóna Vísir/Samsett

Garðyrkjubændur biðja nágranna um að skjóta ekki upp flugeldum í nágrenni við gróðurhúsin sín. Guðmundur Steinar Zebitz annar eiganda skógarmiðstöðvarinnar Kvistabæjar í Reykholti segir að flugeldar geti valdið mörghundruð milljóna króna skaða.

Gróðurhús hreinlega springi

Guðmundur segir að úrgangur flugelda, hattar og prik, geti virkað eins og hnífar á plastþekjur gróðurhúsa á leið sinni niður. Aðeins eitt gat af völdum flugelda geti valdið því að húsin hreinlega springi í roki og óveðri með tilheyrandi tjóni.

„Þetta hefur komið fyrir í hverju ári.. Þá þarf maður að plástra einhverju í þetta til þess að vindurinn nái ekki að rífa í þetta. En stundum sér maður þetta ekki vegna þess að þetta getur verið hárfínt gat. Og þá þegar það gerir vont veður nær vindurinn að rífa í þetta og þá rifnar þekjan og þá bara springa húsin,“ segir Guðmundur í samtali við fréttastofu.

Fólk taki tillit

Hann segir jafnframt að slíkt atvik hafi átt sér á Reykholtssvæðinu fyrir tæpum tveimur árum og að þá hafi tvö gróðurhús sprungið og annað lagst alveg flatt. Hann segir að það hafi valdið kostnaði sem nam mörghundruð milljónum króna.

„Þetta má vekja fólk aðeins til umhugsunar. Maður skilur alveg að fólk vill skjóta upp flugeldum þetta er fullkomlega eðlilegt á þessum árstíma. Bara að fólk taki aðeins tillit til þess hvar það er að skjóta þessu upp og líka ef vindáttin stendur þannig að flugeldarnir fari í áttina að gróðurhúsum að fólk hafi varann á,“ segir Guðmundur.

Hann segir að þó hann skilji fullkomlega að fólk vilji skjóta upp flugeldum um áramótin sé betur farið með aurinn að styrkja björgunarsveitina beint með peningaframlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×