Erlent

YouTube-ari leysti tíu ára gamalt mannshvarfsmál

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bíll Donald Erwin fannst í tjörninni sem sést í hægra horni myndarinnar.
Bíll Donald Erwin fannst í tjörninni sem sést í hægra horni myndarinnar. Lögreglustjórinn í Camden-sýslu í Missouri

Rannsókn bandaríska YouTube-arans James Hinkle varð til þess að líkamsleifar manns, sem hafði verði týndur í tíu ár, fundust í Missouri-ríki Bandaríkjanna.

Rannsakendur og leitarhundar fundu líkamsleifar Donald Erwin á aðfangadag, en hann sást síðast þann 29. desember árið 2013. Það gerðist í kjölfar þess að Hinkle bar á kennsl á bíl Erwin, Hyundai Elantra frá árinu 2002, á botni tjarnar.

Fjallað er um málið í fjölmiðlim vestanhafs. Hinkle hefur birt stutt myndband frá leit sinni, en þar sést hann róa á kajak um tjörnina þar sem bíllinn fannst.

 Hann hafði upp á sínar eigin spýtur byrjað að rannsaka málið og fengið leyfi frá jarðareiganda, sem á jörðina þar sem tjörnina er að finna, til að leita á svæðinu. Hann fann bílinn þann sextánda desember og gerði lögreglu viðvart um málið.

Hún dró bílinn á land og leitaði í kjölfar betur í tjörninni og á svæðinu í kringum það.

Lögreglan telur næstum því öruggt að um sé að ræða líkamsleifar Erwin, sem var 59 ára þegar hann týndist. Síðast sást til hans í umræddum Hyundai-bíl og þá er líkið með gervimjöðm, líkt og Erwin var með.

Fjölskyldu hans hefur verið gert viðvart um fundinn og lögreglan þakkar veitta hjálp í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×