Innlent

Af­létta ó­vissu­stigi á Vest­fjörðum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Óvissustigi hefur verið aflétt á Vestfjörðum.
Óvissustigi hefur verið aflétt á Vestfjörðum. Vísir/Arnar

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum hefur verið aflétt. Snjóflóð á norðanverðum Vestfjörðum féllu aðfaranótt aðfangadags og Þorláksmessukvöld.

Í færslu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar kemur fram að úrkomulítið hafi verið í nótt á Vestfjörðum og dregið úr vindi. Veðurspá geri ráð fyrir hægri norðaustanátt og síðan austanátt í dag, með lítilli úrkomu. 

„Snjóflóð féllu á norðanverðum Vestfjörðum aðfaranótt aðfangadags og á Þorláksmessukvöld. Ekki hefur frést af nýrri flóðum en vegir hafa víða verið lokaðir og fáir á ferli og því má búast við að fleiri snjóflóð hafi fallið en hafa verið tilkynnt,“ segir í færslunni.

Mismunandi veðurlíkön sýni svipaðar spár og dregið hafi úr óvissu í veðurkortunum. Fyrr í dag var ákveðið að aflétta óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Norðurlandi, en þar sem veðurspár voru óljósar var ákveðið að bíða með afléttingu á Vestfjörðum. Nú hefur hins vegar dregið úr snjóflóðahættu og ekki talið að hætta skapist í byggð úr þessu. Því var tekin ákvörðum um að aflétta einnig óvissustigi á Vestfjörðum.

„Fólk ætti þó að gæta varúðar þegar ferðast er um brattlendi því töluvert hefur bætt í snjó til fjalla og snjóalög geta verið óstöðug.

Gleðilega hátið og förum varlega á ferð um brattlendi!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×