Erlent

Hlupu þungvopnaðir um í leit að á­rásar­manninum

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndbandið sýnir lögregluþjóna meðal annars leita árásarmannsins, hlúa að fórnarlömbum og flytja þau á brott.
Myndbandið sýnir lögregluþjóna meðal annars leita árásarmannsins, hlúa að fórnarlömbum og flytja þau á brott.

Lögreglan í Prag hefur birt myndband sem sýnir lögregluþjóna og sérsveitarmenn leita að árásarmanninum í einni verstu fjöldaskotárás Evrópu, sem framin var í gær. Ungur byssumaður gekk berserksgang í háskóla í borginni þar sem hann skaut minnst fjórtán til bana og særði 25.

Umrætt myndband er unnið úr upptökum úr vestismyndavélum lögregluþjóna og sýnir þá hlaupa um skólann í leit að árásarmanninum og fólki í felum og flytja særða á brot.

Uppfært: Skömmu eftir birtingu fréttarinnar bárust fregnir af því að árásarmaðurinn hefði beint byssu sinni að sjálfum sér eftir árásina. Hann var ekki skotinn af lögregluþjónum eins sagt var í gær og stóð hér fyrst.

Áður en ódæðið var framið höfðu yfirvöld fengið upplýsingar um að maðurinn væri á leið til Prag, hugsanlega til að svipta sig lífi, og höfðu rýmt aðra byggingu háskólans þar sem hann var talinn ætla að sækja fyrirlestur.

Maðurinn lét hins vegar til skarar skríða í annarri byggingu, en ekki er vitað hvað honum gekk til.

Sjá einnig: Þjóðar­sorg í Tékk­landi vegna skotaárásarinnar

Mikill viðbúnaður er í Tékklandi í kjölfar árásarinnar og eru vopnaðir lögregluþjónar víða sýnilegir.

Lögreglan sagði frá því í dag að maður hefði hringt í neyðarlínuna í gærkvöldi og lýst því yfir að árásin í skólanum í gær hefði haft mikil áhrif á sig. Hann vildi einnig verða sér út um byssu og skjóta fólk. 

Það tók nokkrar klukkustundir að bera kennsl á hann og var hann handtekinn í áhlaupi lögreglu í kjölfarið. Myndband af áhlaupinu var birt af lögreglunni fyrr í dag.


Tengdar fréttir

Fimmtán látnir eftir skotárás í Prag

Fimmtán eru látnir og tugir særðir eftir skotárás við háskóla í Prag að sögn stjórnvalda í Tékklandi. Skotárásarmaðurinn er 24 ára nemandi við skólann.

Sat fyr­ir lög­regl­u­þjón­um eft­ir að hann skaut sam­starfs­menn sína

Lögreglan í Louisville í Kentucky hefur birt myndband sem sýnir hvernig fyrstu tveir lögregluþjónarnir sem mættu á vettvang mannskæðar skotárásar í banka í borginni voru særðir af árásarmanninum, sem lét skothríðina dynja á þeim. Fimm dóu og átta særðust í árásinni sem framin var af fyrrverandi starfsmanni bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×