Sport

Byrjar sitt 36. tíma­bil í at­vinnu­mennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jaromir Jagr átti langan og stórmerkilegan feril í NHL deildinni en hann er hvergi nærri hættur.
Jaromir Jagr átti langan og stórmerkilegan feril í NHL deildinni en hann er hvergi nærri hættur. Getty/Gerry Thomas

Tékkneski íshokkímaðurinn Jaromir Jagr spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í vikunni. Það er stórmerkilegur áfangi enda kappinn orðinn 51 árs gamall.

Jagr er að spila með heimaliði sínu Kladno Knights í tékknesku deildinni. Hann átti eina stoðsendingu í 4-3 tapi þar sem liðið hans náði að jafna í 3-3 eftir að hafa lent 3-0 undir.

Þetta er hans 36. tímabil í atvinnumennsku og hann spilaði í þrettán mínútur og 44 sekúndur.

Þetta er reyndar 26. leikur Kladno Knights á tímabilinu en Jagr er þekktur fyrir að byrja seint að spila. Hann byrjaði í 27. leik í fyrra.

Jagr er þekktastur fyrir feril sinn í bandarísku NHL-deildinni enda einn sá besti sem hefur spilað í henni.

Hann hóf sinn atvinnumannaferil með Kladno Knights sem táningur og snéri aftur til félagsins árið 2018. Hann er síðan eigandi tékkneska félagsins í dag.

Ferill hans í NHL-deildinni var stórmerkilegur en hann er í öðru sæti yfir þá sem hafa búið til flest mörk í deildinni. Enginn hefur skorað fleiri sigurmörk og hann er sá elsti til að skora þrennu í deildinni.

Hann spilaði í NHL frá 1990 til 2018 og náði tvisvar sinum að verða Stanley meistari. Hann var alls með 766 mörk og 1155 stoðsendingar í 1733 leikjum í deildinni.

Jagr varð einnig tvisvar heimsmeistari með Tékkum, 2005 og 2010 og vann líka Ólympíugull í Nagano 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×