Erlent

Klúðruðu fjölda tæki­færa til að stöðva raðmorðingja

Samúel Karl Ólason skrifar
DeAngelo Martin í dómsal í júní 2019.
DeAngelo Martin í dómsal í júní 2019. AP/Todd McInturf

DeAngelo Martin var fyrir ári síðan fangelsaður fyrir að myrða fjórar konur og nauðga tveimur í Detroit í Bandaríkjunum. Nú lítur út fyrir að lögreglan í borginni hafi lagt litla áherslu á að handsama hann. Vísbendingar eru sagðar hafa verið hunsaðar og nauðsynleg skref við rannsókn morða voru ekki tekin yfir fimmtán ára tímabil.

Rannsókn AP fréttaveitunnar hefur leitt í ljós að hefði lögreglan tekið áðurnefnd skref eða brugðist við ábendingum sem beindust að Martin, hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir morðin.

Yfirmenn lögreglunnar staðhæfðu þó árið 2019, þegar Martin var ákærður, að engu hefði verið til sparað og mikið kapp lagt á að fanga morðingjann.

Martin laðaði konurnar inn í yfirgefnar byggingar þar sem hann myrti þær og stillti nöktum eða lítið klæddum líkum þeirra upp.

Jim Trainum, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem sérhæfir sig nú í að greina rannsóknir annarra, segir málið ótrúlegt.

„Það eina sem lögreglan þurfti að gera var einn lítill hlutur. Einn lítill hlutur hér eða þar og þeir hefðu stöðvað þetta allt saman. Konurnar væru enn á lífi. Bara einn lítill hlutur,“ sagði Trainum.

Gerðu hver mistökin á eftir öðru

Rannsóknin byggir á dómskjölum, öðrum gögnum og fjölda viðtala. Meðal annars var notast við skýrslu frá innra eftirliti lögreglunnar. Þessi gögn og viðtöl sýndu fram á að lögregluþjónar byrjuðu strax á því að gera stór mistök í málinu.

Þegar 41 árs konu var nauðgað af Martin árið 2004 gleymdist sýni sem tekið var. Það og þúsundir annarra sýna gleymdust í vöruskemmu um árabil og þegar það fannst aftur var Martin búinn að myrða fyrsta fórnarlamb sitt og það nokkuð löngu áður.

Klúður lögreglunnar héldu áfram til ársins 2018, þegar lögreglan handtók rangan mann eftir að kona hafði verið kyrkt. Þá gerðist það einnig að vísindamenn tengdu Martin við lífsýni sem tengdist morðinu, en þrátt fyrir það leituðust lögregluþjónar ekki eftir því að handtaka Martin fyrr en nokkrum vikum eftir að hann nauðgaði annarri konu árið 2019 og hafði myrt þrjár til viðbótar.

Í áðurnefndri skýrslu innra eftirlits lögreglunnar segir að lögregluþjónar hafi meðhöndlað lífsýni með röngum hætti og gert önnur mistök. Vanræksla lögregluþjóna þótti ekki glæpsamleg en tveimur var vikið úr starfi um tíma.

Michael McGinnis, sem leiddi morðdeild lögreglunnar í Detroit á sínum tíma sagði að í dag hefði hann viljað sjá starfsmenn sína leggja meira á sig. Það sé þó auðvelt að vera vitur eftirá. Hann sagði yfirmenn embættisins hafa lært af mistökunum og miklar breytingar hefðu verið gerðar á starfsreglum.

„Við lærum af mistökum okkar og leggjum okkur fram við að gera betur.“

Ættingjar eru reiðir

Ættingjar fórnarlamba Martins brugðust reiðir við niðurstöðum blaðamanna AP um að lögreglan hafi haft nokkur tækifæri til að stöðva Martin áður en hann myrti konurnar fjórar. Þau veltu þar að auki vöngum yfir því hvort lögregluþjónar hefðu lagt meira á sig ef fórnarlömb hans hefðu ekki verið jaðarsettar konur, sem glímdu við fíkn, geðræn vandamál eða væru heimilislausar.

Lisa Hohnstreiter heldur uppi mynd af sér, bróður sínum og Nancy Harrison, móður hennar, sem var annað fórnarlamb Martin í mars 2019. Hún var 52 ára gömul.AP/Carlos Osorio

Martin var dæmdur í allt að sjötíu ára fangelsi. Hann fæddist árið 1985 og var alinn upp af móður sinni. Þegar hann var þrettán ára var hún þó handtekin og síðar dæmd vegna mannráns og morðs á 28 ára manni. Hún hafði leyft fíkniefnasala til að halda öðrum sala í kjallara hennar á meðan sá fyrrnefndi og samstarfsmenn hans reyndu að kúga fé úr fjölskyldu fangans.

Maðurinn var pyntaður í kjallaranum en þegar ljóst varð að ekkert lausnarfé yrði greitt var hann myrtur og lík hans skilið eftir út á götu.

Martin bjó eftir það hjá ömmu sinni og afa eða á götum Detroit. Í gegnum árin glímdi hann við fíkn og alkahólisma. Hann komst ítrekað í kast við lögin í gegnum árin og var lífsýni hans því á skrá hjá lögreglunni. Hann var fyrst tengdur nauðgun árið 2012, þegar áðurnefnt sýni frá nauðgun sem átti sér stað 2004 var loks rannsakað.

Sátu á vísbendingum

Lögreglan gerði ekkert við þær upplýsingar um langt skeið og þegar þær voru skoðaðar kom í ljós að konan sem Martin hafði nauðgað var látin og var málið því ekkert skoðað aftur. Árið 2016 var Martin svo tengdur annarri nauðgun með lífsýni.

Þá hafði Martin ráðist á fimmtuga konu í yfirgefnu húsi, barið hana og nauðgað. Konan neitaði þó að bera vitni og að aðstoða lögregluna. Ári síðar var DNA-sýni Martins tengt þriðja sýninu sem tekið var eftir nauðgun. Það sýni var tekið á sjúkrahúsi og lögregluþjónum tókst aldrei að finna fórnarlambið.

Martin framdi fyrsta morðið í febrúar 2018 en lögreglan handtók rangan mann. Tveir lögregluþjónar stöðvuðu til að ræða við útigangsmann sem kallaði til þeirra. Hann stóð þá við nakið lík og var maðurinn handtekinn í kjölfar þess að upptökur úr öryggismyndavélum sýndu hann draga líkið út úr yfirgefinni byggingu.

Hann sagðist hafa fundið líkið þar inni þar sem hann var að leita að fíkniefnum. Hann sagðist hafa dregið líkið út svo það fyndist alveg örugglega. Manninum var sleppt viku seinna þegar annað myndband var sagt sýna fram á sakleysi hans.

Sakleysi mannsins var svo staðfest með greiningu á lífsýni tveimur mánuðum síðar. Sú greining bendlaði Martin við morðið og var lögregluþjónum tjáð að þetta lífsýni tengdist einnig áðurnefndum málum. Vísindamenn fundu einnig lífsýni úr öðrum manni.

Lögreglan myndaði handtökuteymi sem átti að finna og handtaka Martin. Það gekk ekki en opinber gögn sýna ekki fram á hvað teymið gerði til að reyna að finna hann. Sérfræðingar segja ótrúlegt að lögreglan hafi ekki beðið um heimild til að safna nýs sýnis úr Martin en það hefði einnig varað önnur löggæsluembætti við honum.

Komst ítrekað í kast við lögin en var ekki eftirlýstur

AP segir gögn sýna að Martin hafi ítrekað komist í kast við lögin á mánuðunum eftir að handtökuteymið var myndað. Hann var meðal annars sektaður fyrir óspektir, handtekinn fyrir að segja ósatt um hver hann væri og í desember 2018 var hann handtekinn og sat í fangelsi í tvær vikur fyrir að ganga í skrokk á konu.

Þessi tilfelli komu þó upp í öðrum umdæmum en morðin og þar sem lögreglan hafði aldrei lýst eftir Martin eða fengið áðurnefnda heimild fyrir nýju lífsýni, rataði nafn hans aldrei í kerfið. Lögregluþjónar í öðrum umdæmum í Detroit vissu ekki að hans ætti að vera leitað.

Skömmu eftir að honum var sleppt úr fangelsi myrti hann aðra konu. Það var í mars 2019 og þá fannst lík 52 ára konu í yfirgefnu húsi. Hún hafði verið barin í höfuðið og Martin játaði síðar að hafa barið hana með planka.

Tamara Jones var 55 ára þegar Martin myrti hana í júní 2019.AP/Fjölskyldumynd

Tveimur mánuðum eftir það, eða í maí 2019, var lögreglan kölluð að heimili ömmu Martins, þar sem 26 ára kona sagði hann hafa stungið sig og nauðgað sér í kjallaranum. Frænka hans staðfesti frásögn konunnar og benti þeim á að Martin hefði framið brotið.

Lögregluþjónar fóru þó ekki fram á handtökuskipun á hendur Martin fyrr en tveimur dögum eftir að fjórða fórnarlamb hans fannst látið.

Handtekinn í öðrum bæ, vegna annars máls

Nokkrum dögum eftir að hann nauðgaði konunni í kjallara ömmu sinnar, var Martin handtekinn í öðrum bæ í um fimmtíu kílómetra fjarlægð. Þá var ekki enn búið að lýsa eftir honum vegna morðanna eða nauðgananna og var hann þess í stað handtekinn fyrir að rjúfa skilorð eftir áðurnefndan dómi sem hann fékk fyrir líkamsárás.

Hann sat í tíu daga fangelsi í það sinn.

Þrátt fyrir fjölmörg tækifæri og tilefni handsömuðu lögregluþjónar ekki DeAngerlo Martin.AP/Lögreglan í Detroit

Degi eftir að honum var sleppt, fannst lík þriðju konunnar sem Martin myrti. Sú kona hafði verið myrt löngu áður og fannst einnig í yfirgefnu húsi. Fjórða líkið fannst svo einnig í yfirgefnu húsi þann 5. júní 2019. Hún hafði verið barin til dauða.

Þann 7. júní hélt Mike Duggan, borgarstjóri, blaðamannafund þar sem hann og yfirmenn lögreglunnar hétu því að skoða yfirgefnar byggingar og reyna að ganga frá þeim svo ekki væri hægt að halda til í þeim. Lögreglan varaði við því að mögulega væri raðmorðingi á ferð.

Sýni sem tekin voru á vettvangi bendluðu Martin við bæði morðin og degi eftir blaðamannafundinn, sama dag og lýst var eftir honum í fyrsta sinn, var Martin handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×