Fótbolti

Bannað að kjósa Albert

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson kemur ekki til greina sem knattspyrnumaður ársins.
Albert Guðmundsson kemur ekki til greina sem knattspyrnumaður ársins. Getty/Simone Arveda

Albert Guðmundsson kemur ekki til greina sem knattspyrnumaður ársins hjá KSÍ, vegna kæru fyrir kynferðisbrot sem hann kveðst saklaus af.

Frá þessu er greint á vef 433.is þar sem vísað er í svar frá KSÍ við því af hverju Albert komi ekki til greina í kjörinu í ár. Í því segir að sömu reglur gildi varðandi val á knattspyrnumanni ársins eins og við val á leikmönnum í landsliðið, þar sem þeir sem liggi undir grun um lögbrot komi ekki til greina.

Ljóst er að ef aðeins væri horft til afreka á fótboltavellinum kæmi Albert til greina að þessu sinni, eftir að hafa átt ríkan þátt í að koma Genoa upp úr ítölsku B-deildinni í vor og svo farið á kostum í ítölsku A-deildinni, einni af bestu deildum Evrópu, í haust. Þar hefur hann meðal annars skorað sex mörk í 14 leikjum.

Albert lék hins vegar aðeins fyrri hluta árs með íslenska landsliðinu því hann hefur ekki komið til greina í landsliðið frá því í ágúst, þegar fram kom að hann hefði verið kærður fyrir kynferðisbrot.

„Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram. Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar,“ sagði Albert í stuttri yfirlýsingu í ágúst.

Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að mál Alberts væri komið á borð héraðssaksóknara, að lokinni rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Embætti héraðssaksóknara tekur svo ákvörðun um það hvort Albert verður ákærður eða málið látið niður falla.

Á vef 433.is er birtur atkvæðaseðillinn sem kjósendur valdir af KSÍ nota í kjörinu á knattspyrnumanni ársins. Tíu leikmenn koma til greina en þeir eru, í stafrófsröð: 

  • Arnór Ingvi Traustason (Norrköping)
  • Birnir Snær Ingason (Víkingi)
  • Guðlaugur Victor Pálsson (Eupen)
  • Hákon Arnar Haraldsson (Lille)
  • Hákon Rafn Valdimarsson (Elfsborg)
  • Hörður Björgvin Magnússon (Panathinaikos)
  • Jóhann Berg Guðmundsson (Burnley)
  • Jón Dagur Þorsteinsson (OH Leuven)
  • Orri Steinn Óskarsson (FC Kaupmannahöfn)
  • Willum Þór Willumsson (Go Ahead Eagles)

Á vef KSÍ segir að fjölmargir aðilar, meðal annars fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, komi að kjörinu hverju sinni.

Þess ber að geta að einnig er kosið sérstaklega um knattspyrnukonu ársins. Í fyrra urðu þau Hákon Arnar Haraldsson og Glódís Perla Viggósdóttir fyrir valinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×