Erlent

Pilturinn er kominn aftur til Bret­lands

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Lögreglan í Manchester undirbýr nú blaðamannafund vegna málsins. 
Lögreglan í Manchester undirbýr nú blaðamannafund vegna málsins.  Lögreglan í Manchester

Hinn sautján ára Alex Batty, sem fannst í Frakklandi á miðvikudag eftir að hafa verið saknað í sex ár, er kominn aftur til Bretlands samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Manchester. 

Greint var frá því í gær að Alex hefði horfið sumarið 2017 eftir að hafa farið í ferðalag með móður sinni og móðurafa. Amma hans fór með forræði piltsins en gaf leyfi fyrir vikulangri ferð. Þau sneru aldrei aftur. 

BBC greinir nú frá því að pilturinn sé kominn heim til Bretlands samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Samkvæmt saksóknara í Frakklandi hafi hann flogið í fylgd breskra lögreglumanna. 

Þá segir að lögreglan í Manchester undirbúi blaðamannafund vegna málsins. 

Lögregla hafði eftir Alex þegar hann fannst að hann hefði búið í afskekktum dölum í Pýreneafjöllunum, flakkað á milli staða með hópi fólks. Svæðið er þekkt fyrir að laða að sér fólk sem leitar í óhefðbundinn lífsstíl.

Þá segir að ökumaður hefði farið með Alex á lögreglustöð í Frakklandi eftir að hafa tekið eftir pilti á götunni neðst í Pýreneafjöllunum snemma morguns á miðvikudag. Hann hafi sagst hafa gengið í fjóra daga í von um að komast aftur til ömmu sinnar sem býr í Englandi. Maðurinn kom Alex í samband við ömmu sína í gegn um Facebook. 

Þá sagðist hann hafa ákveðið að yfirgefa móður sína þegar hún hugðist flytja til Finnlands. 


Tengdar fréttir

Fannst í Frakklandi eftir sex ára leit

Sautján ára enskur piltur sem hafði verið saknað í sex ár fannst í Frakklandi á miðvikudag. Vegfarandi hjálpaði piltinum að komast í samband við ömmu sína með hjálp Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×