Erlent

Sam­komu­lag á COP28 í höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Sultan al-Jaber, forseti loftslagsráðstefnunnar COP28, stóð upp og klappaði eftir að hafa tilkynnt að samkomulag var í höfn.
Sultan al-Jaber, forseti loftslagsráðstefnunnar COP28, stóð upp og klappaði eftir að hafa tilkynnt að samkomulag var í höfn. AP

COP28-loftsráðstefnunni í Dubaí lauk nú á áttunda tímanum sem tímamóta samkomulagi þar sem ríki heims eru hvött til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Fulltrúar sendinefnda stóðu upp og klöppuðu á allsherjarfundi eftir að Sultan al-Jaber, forseti COP28, tilkynnti að drögin að lokayfirlýsingu ráðstefnunnar hafi verið samþykkt án andmæla um klukkan sjö í morgun.

Þetta er í fyrsta sinn sem ákall um umskipti ríkja heims í átt frá notkun jarðefnaeldsneytis er að finna í yfirlýsingu COP-ráðstefnu. 

Margir hafa þó lýst óánægju með að ekki skuli hafa verið gengið lengra með því að tala um að stefnt skuli að algjörri útfösun á slíku eldsneyti. 

Fundað var í alla nótt um málið en þegar drög að samkomulagi lágu loks ljós fyrir tók það skamma stund að samþykkja tillöguna og risu ráðstefnugestir úr sætum og klöppuðu fyrir niðurstöðunni. 

Umrædd yfirlýsing er 21 síða að lengd með nærri tvö hundruð málsgreinum. Ekki er um bindandi skjal að ræða fyrir ríki heims en er talin marka leiðina til framtíðar.

Í drögunum er viðurkennd þörfin fyrir mikilli og hraðri minnkun sem haldið verði við, sé ætlunin að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráðu. Með aðgerðum verði hægt að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

Rætt var við Helgu Barðadóttur, formann sendinefndar Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×