Skoðun

Laga­setningar gegn al­menningi, Rétt­læti hins sterka

Jörgen Ingimar Hansson skrifar

Lagasetningar gegn almenningi

Sumar lagasetningar Alþingis eru, eftir því sem ég best get séð, beinlínis til þess fallnar að gefa hin­um best meg­andi í þjóðfélaginu tækifæri til að taka í lurginn á einstaklingum meðal al­menn­ings.

Fyrst má nefna máls­kostn­að­ar­tryggingu. Hefji félítill maður mál gegn öðrum getur hann lent í því þegar í upphafi máls að vera krafinn um tryggingu, sem getur numið milljónum króna, fyrir hugsanlegum málskostnaði tapi hann mál­inu. Hún liggur þá föst í dómnum þangað til hann er kveðinn upp, jafnvel einhverjum ár­um síðar. Setji hann ekki trygginguna er málinu sjálfkrafa vísað frá dómi. Skilgrein­ing­in á félítill er hvort hann geti sýnt fram á að hann hafi fé til þess að greiða máls­kostn­aðinn komi til hans.

Upprunalega hug­myndin gæti hafa verið sú að tryggja að ekki væri unnt að lög­sækja hinn fjárhags­lega sterka af einhverjum annarlegum ástæð­um. Ég held samt að ég geti fullyrt að dómari hafi aldrei dæmt samkvæmt henni. Einungis eftir því hvort hinn fjárhagslega veiki teldist borgunarmaður fyrir máls­kostnaðinum eða ekki. Samkvæmt lögum virðast hins vegar engar hömlur vera á málsóknum hins fjár­hagslega sterka gegn hinum veika af hvaða toga sem er. Sem dæmi má nefna fréttir af mál­sókn Samherja gegn starfs­mönn­um Seðlabanka Íslands. Samkvæmt þeim hætti hann henni að lokum að því er virtist af eigin hvötum eftir einhverra ára þjark í réttarsölum ef ég man rétt.

Sem annað sambærilegt dæmi má nefna svokallaða löggeymslu sem einnig felst í því að verða að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Henni er unnt að beita gegn þeim sem hefur tapað máli í undir­­rétti og fengið á sig tilheyrandi málskostnað en áfrýjar til efra dómstigs. Setji hann ekki trygginguna fyrir málskostnaðinum er reyndar ekki beinlínis unnt stöðva rekstur málsins. Hins vegar er unnt að gera hann gjald­þrota samkvæmt þessum lögum á ódýran hátt og á stutt­um tíma miðað við venju­­lega gjaldþrotskröfu. Alla vega er ekki augljóst hvernig hinn gjaldþrota ein­stakl­ingur eigi að halda málinu áfram við þær aðstæður.

Þó hér séu aðeins tekin fyrir þessi mál eru sennilega mýmargar lagasetningar andstæð­ar almenningi á einn eða annan hátt. Má þar nefna að allur kostn­aður sem greiddur er beint til dómstóla í dómsmáli er annað­hvort óháður stærð málsins eða með afgerandi afslætti fyrir hinn sterka. Þarna er ekki verið að tala um 5-10% eins og oftast er gert þegar verið er að bjóða hann heldur jafnvel 90-99%. Allt eru þetta að vísu lágar upphæðir (yfirleitt nokkrir tugir þúsunda) nema helst þær sem hinn fjárhagslega sterki fær afslátt af sem myndu nema milljónum króna.

Stytt málsmeðferð

Hindrun á því að unnt sé að draga fólk fyrir dómstóla af annarlegum ástæðum á örugglega rétt á sér.

Með stefnu og greinargerð stefnda í upphafi máls eiga samkvæmt lögum megin­drættir hvers máls að vera ljósir. Með þeirri viðbót að gerð yrði grein fyrir hvernig aðilar myndu haga mál­flutn­ingi sínum í málinu gæti dómari þá þegar ákveðið að málinu yrði slitið væru yfirgnæfandi líkur á annarlegu ástæðum fyrir málsókninni. Þetta yrði að vera undantekning­ar­atriði, einungis notað þegar dómari teldi augljóst að dómstóll­inn væri misnotaður, vel útskýrt frá báðum hliðum í dómsforsendum, en myndi á hinn bóginn gilda alla en ekki bara félitla einungis vegna þess að þeir séu félitlir.

Lagaskýringar

Í þessu sambandi má nefna að lög eru í raun samin í þremur áföngum. Fyrst með því að fáir semji þau til framlagningar fyrir Alþingi. Það er oftast gert í ráðuneytun­um, það er hjá framkvæmdavaldinu. Eftir afgreiðslu Al­þing­is tekur við túlkun lag­anna sem oft fer fram í svokölluðum lögskýringum sem til dæmis geta orðið til sem kennslubók um lögin í lögfræðideild(um) háskóla. Oftast er það góðra gjalda vert. Í sífellt flóknari heimi er hins vegar orðið varasamara að sá sem aðeins er með lög­fræði sem bakgrunn geri það án stuðnings frá öðrum fag­grein­­­­um.

Sem dæmi má nefna að í lögskýringum að lögum um hlutafélög og einka­hluta­félög virðast sömu lög gilda um stærstu alþjóðlegu fyrirtæki og pínu­­­lítil tveggja manna fyrirtæki sem báðir vinna í sem varð til þess í mínu máli að sá sem titlaður var framkvæmdastjóri var samkvæmt dómi talinn alvaldur í fyrir­tæk­inu líkt og í stór­fyrirtækinu nema málið hefði verið tekið fyrir á form­legum stjórn­ar­fundi boð­uðum með löglegum fyrirvara og mátti meira að segja stinga fjármunum þess í eigin vasa. Hæstiréttur Íslands taldi vel að merkja túlkunina hárrétta. Þarna er niður­staðan sú að Alþingi hefur búið til gildru fyrir þá sem stofna lítil fyrirtæki.

Ég legg til að einhver, til dæmis fulltrúi Umboðsmanns Alþingis, yfirfari öll lög sem eru í með­ferð Al­þingis á hverjum tíma auk lögskýringa með tilliti til hagsmuna almennings og smárra fyrirtækja. Alþingi virðist leita mjög til svokallaðra hags­­munaaðila til aðstoð­ar við að koma á lögum sem passi fyrir „all­a“ en reynist oft bara henta hagsmunaaðilunum þegar upp er staðið. Athuga þarf að fulltrúinn mun þurfa að kall­a sér til aðstoðar aðila úr öðrum fag­greinum samborið ofan­greint. Rík ástæða er til að ýmis eldri lög og lögskýring­ar fengju sömu meðferð.

Horfa þarf til framtíðar þegar lög eru sett

Núverandi Lög um meðferð einkamála eru frá árinu 1991, það er í upphafi tölvu­­­­­­ald­­ar eins og við þekkjum hana. Þau voru hins vegar af­greidd frá Alþingi eins og árið 1970 væri enn við lýði og engin tölvuöld að hefjast. Samt var þá tiltölulega auðvelt að sjá hvað væri í vændum. Þau lög voru með öðr­um orðum úrelt þegar þau voru gefin út og hafa verið að úreldast hraðar og hraðar síðan. Það má ekki gerast aftur.

Núna er hraði breytinga margfalt meiri. Það sem gerðist 1970 á kannski 10 árum gerist nú væntanlega á einu ári. Hætt er við því að innan allt of margra ára muni álíka miklar breytingar gerast á einum mánuði.

Þegar næst verða afgreidd Lög um meðferð einkamála, sem verður að gera sem fyrst, verður að reyna að horfa eitthvað fram í tímann en ekki til baka við samningu laganna annars verðum við bara áfram í sömu súpunni og við erum nú.

Þetta nægir að vísu ekki. Dómskerfið þarf einnig að þróa í takt við tæknina og þjóðfél­ags­breytingar á hverjum tíma. Það verður að vera til einhver aðili, til dæmis nefnd dómara, lögmanna, framtíðarfræðinga og fleiri sérfræðinga sem ætlað er að fylgjast með þróun þjóðfélagsins og koma á framfæri breytingum á gildi ákveðinna sönnunargagna og dómsmeðferða sem svo þyrfti að öðlast víðtækt samþykki innan dómarastéttarinnar og einnig Umboðsmanns Alþingis og væntanlega að lokum bless­unar Alþingis. Á þann hátt væri unnt að aðlaga lögin betur að þjóðfélagi hvers tíma.

Lokaorð

Ofangreind málefni eru nánar útskýrð í bókinni Réttlæti hins sterka, Ádeila á dóms­kerfið og Alþingi.

Í þessari grein hef ég eins og í undanfarandi grein (birt 4. desember síðastliðinn) reynt að leggja til nokkrar ein­faldar en mikilvægar umbætur í dómskerfinu og vara við hroðvirkni í meðförum Alþingis. Því miður tel ég samt sem áður að þær yrðu aðeins áfangi að því að gera dómskerfi landsins í þannig stand að al­menn­ingi sé í raun fært að taka þátt í því þannig að hann eigi möguleika eins og stundum er sagt.

Höfundur er rekstrarverkfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×