Enski boltinn

Treyjur enska mark­varðarins seldust nú upp á nokkrum mínútum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mary Earps átti frábært ár með enska landsliðinu og liði Manchester United.
Mary Earps átti frábært ár með enska landsliðinu og liði Manchester United. Getty/Michael Regan

Mary Earps, markvörður enska landsliðsins og besti markvörður síðasta heimsmeistaramóts, barðist fyrir því að hægt væri að kaupa markvarðartreyju hennar út í búð.

Nike ætlaði fyrst að bjóða aðeins treyjur útileikmannanna í sölu og taldi að ekki væri markaður fyrir markmannstreyjurnar.

Nú er ekki hægt að kaupa treyjuna en ekki af því að hún er ekki til sölu heldur vegna þess að hún er uppseld.

Nike lét loksins undan pressunni og fór að framleiða markmannstreyju Earps í kringum HM í haust. Þær markmannstreyjur seldust upp á aðeins nokkrum klukkutímum.

Nike hafði framleitt nýjan skammt af markmannstreyjum og gerði ráð fyrir góðri sölu. Sú áætlun náði þó skammt. Markmannstreyjurnar fóru aftur í sölu og seldust núna upp á nokkrum mínútum.

Það má búast við því að markmannstreyjur Earps verði í nokkrum jólapökkum á Englandi í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×