Sport

Nýjasta stjarna Dallas Cowboys liðsins kom úr ó­væntri átt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon Aubrey hefur slegið í gegn hjá Dallas Cowboys liðinu.
Brandon Aubrey hefur slegið í gegn hjá Dallas Cowboys liðinu. Getty/Richard Rodriguez

Saga sparkarans Brandon Aubrey er stórmerkileg en hann setti tvö NFL-met i sigri Dallas Cowboys liðsins á sunnudaginn.

Fyrir aðeins fjórum árum síðan hafði Aubrey gefist upp á fótboltaferli sínum og fór þess í stað að læra að verða hugbúnaðarverkfræðingur.

Þar eru við að tala um það sem við Evrópubúar köllum fótbolta en ekki fótbolta þeirra Bandaríkjamanna sem er er hér auðvitað bara kallaður amerískur fótbolti.

Aubrey hafði verið valin í nýliðvalinu fyrir bandarísku MLS-fótboltadeildina árið 2017 en spilaði þó bara fyrir varalið félagsins.

Hann spilaði síðan eitt tímabil með Bethlehem Steel FC í United Soccer League. Árið 2018 hætti hann í fótboltanum og hóf nám í hugbúnaðarverkfræði við Notre Dame háskólann.

Árið 2019 var hann að horfa á leik í NFL-deildinni þegar sparkari í leiknum klikkaði á vallarmarkstilraun. Konan hans sagði þá við hann: „Þú gætir gert þetta.“

Frá 2019 til 2022 þá æfði Aubrey þrisvar í viku með þjálfaranum Brian Egan sem sérhæfir sig í að þjálfa sparkara í ameríska fótboltanum. Egan vann lengi hjá Mississippi State háskólanum.

Aubrey fékk síðan samning hjá Birmingham Stallions í USFL deildinni og spilaði í tvö tímabil í deildinni með góðum árangri.

Hann fékk síðan í framhaldinu samning hjá stórliði Dallas Cowboys í sumar. Aubrey hefur nú spilað þrettán leiki með Dallas liðinu og skorað úr öllum þrjátíu vallarmarkstilraunum sínum. Því hefur enginn náð frá upphafi ferils síns í sögu NFL.

Í frábærum sigri á Philadelphia Eagles á sunnudaginn setti hann annað met með því að verða fyrsti sparkarinn til að skora tvö vallarmörk af 59 jarda færi eða lengra, í sama leiknum.

Fyrir nokkrum árum sat hann í sófanum og horfði á NFL leik en nú er hann einn af stjörnuleikmönnum Dallas Cowboys liðsins og farinn að slá NFL-met.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×