Fótbolti

Versta staða ís­lenska lands­liðsins á FIFA listanum í meira en ára­tug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska liðið fær vonandi hjálp frá Gylfa Þór Sigurðssyni til að hjálpa sér við að hækka sig á FIFA-listanum á nýju ári.
Íslenska liðið fær vonandi hjálp frá Gylfa Þór Sigurðssyni til að hjálpa sér við að hækka sig á FIFA-listanum á nýju ári. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hrundi niður um fjögur sæti á styrkleika Alþjóða knattspyrnusambandsins sem var opinberaður í gær.

Íslenska liðið situr í 71. sæti á nýjasta FIFA-listanum og hefur ekki verið neðar á listanum í tíu ár.

Þjóðirnar sem hoppuðu upp fyrir Ísland voru Svartfjallaland, Úsbekistan, Írak og Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Íslenska landsliðið hafði aldrei farið neðar en 67. sæti á undanförnum áratug. Liðið hóf þetta ár í 63. sæti og er því átta sætum neðar núna.

Þetta er versta staða karlalandsliðsins á listanum síðan í júlí 2013. Þá var íslenska liðið í 73. sæti. Lars Lagerbäck hafði þá farið með íslensku strákana úr 130. sæti niður í það 61. á rúmu ári en á listanum í júlímánuði datt íslenska liðið aftur niður um tólf sæti.

Eftir það var aftur á móti leiðin upp á við. Íslenska liðið var komið upp í 54. sæti á listanum í september þetta sama ár, 2013, og var í 46. sætinu í október.

Hæst komst íslenska liðið síðan í 18. sæti í marsmánuði 2018 en á árunum 2016 til 2018 var íslenska landsliðið meðal þeirra þrjátíu bestu í heimi samkvæmt mælikvarða Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Undanfarin ár hefur íslenska liðið síðan fallið hratt niður listann og nú er vonandi botninum náð.

Fram undan eru umspilsleikir í mars, leikir sem geta komið íslenska liðinu á EM. Þar mæta íslensku strákarnir Ísrael í undanúrslitum en Ísraelsmenn fóru líka niður um fjögur sæti eins og Ísland. Ísrael er því áfram fjórum sætum neðar á FIFA-listanum eða í 75. sætinu.

Argentína og Frakkland halda efstu tveimur sætum listans en England og Belgía fara upp fyrir Brasilíu. Samkvæmt listanum eiga Englendingar nú þriðja besta karlalandslið heims og fjórða besta kvennalandsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×