Fótbolti

Sagði við Ten Hag að sér fyndist gaman að sjá United í vand­ræðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag brá nokkuð þegar hann fékk ansi sérstaka spurningu frá fréttamanni TNT Sports.
Erik ten Hag brá nokkuð þegar hann fékk ansi sérstaka spurningu frá fréttamanni TNT Sports. getty/John Peters

Spurning sem fréttamaður TNT Sports spurði Erik ten Hag, knattspyrnustjóra Manchester United, hefur vakið talsverða athygli.

United hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og koma því á nokkuð góðu skriði inn í leikinn mikilvæga gegn Galatasaray í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. United er í fjórða og neðsta sæti riðilsins og ef liðið tapar í Istanbúl í kvöld er útilokað að það komist í sextán liða úrslit keppninnar.

United tapaði fyrri leiknum gegn Galatasaray og fréttamaður TNT spurði Ten Hag hvort United-liðið væri ekki á betri stað núna en þá.

„Já, ég held það. En það sama á örugglega við Galatasaray. Ég held að við höfum bætt okkur,“ sagði Hollendingurinn. „Þú sérð hvernig við erum að stíga upp, erum stöðugri, vinnum leiki og það er mikill munur frá því við spiluðum fyrst við þá.“

Það kom hins vegar nokkuð skrítinn svipur á andlits Ten Hags meðan fréttamaðurinn bar upp næstu spurningu.

„Þið eruð svolítið á stað þar sem tímabilið gæti orðið betra eða þið lent í annarri krísu eins og okkur langar að sjá utan frá,“ sagði fréttamaðurinn.

„Ertu hrifinn af því?“ spurði Ten Hag. „Það er nokkuð heiðarlegt en okkur er sama. Við byrjuðum vikuna vel og verðum að halda áfram.“

Leikur Galatasaray og United hefst klukkan 17:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×