Innlent

Þor­steinn Sæ­munds­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Þorsteinn Sæmundsson starfaði um árabil við Háskóla Íslands.
Þorsteinn Sæmundsson starfaði um árabil við Háskóla Íslands. HÍ/Kristinn Ingvarsson

Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur lést síðastliðinn sunnudag, 88 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun.

Þorsteinn stundaði nám í Menntaskólanum í Reykjavík og hélt svo utan til náms í Háskólann í St. Andrews í Skotlandi. Þaðan lauk hann prófi árið 1958 með stjörnufræði sem aðalgrein og stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði sem hliðargreinar. Eftir það stundaði hann rannsóknir við stjörnuturn Lundúnaháskóla og lauk þaðan doktorsprófi árið 1962. Sérsvið hans var áhrif sólarinnar á jörðina. 

Hann hélt svo til Íslands árið 1963 og hóf þá störf við Eðlisfræðistofnun Háskólans, síðar Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Hann var forstöðumaður jarðeðlisfræðistofu en svo deildarstjóri háloftadeildar og sá um rekstur segulmælingastöðvar Háskóla Íslands frá 1963 og allt til starfsloka. Hann hélt sömuleiðis utan um útreikning og útgáfu Almanaks Háskólans í einhver sextíu ár og þar af nítján ár með öðrum.

Þorsteinn var einn af stofnendum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og fyrsti formaður félagsins. Eftir hann liggja sömuleiðis fjöldinn allur af fræðigreinum.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Guðný Sigrún Hjaltadóttir. Þau eignuðust tvö börn, þau Mána og Svanhildi og þá átti Þorsteinn uppeldisson, Hákon Þór Sindrason sem er sonur Guðnýjar. Barnabörnin eru fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×