Fótbolti

Segir að leik­menn myndu taka á sig launa­lækkun til að minnka leikja­á­lagið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Carvajal með Meistaradeildarbikarinn sem Real Madrid vann 2022.
Daniel Carvajal með Meistaradeildarbikarinn sem Real Madrid vann 2022. Getty/ANP

Dani Carvajal, varnarmaður Real Madrid, heldur því fram að leikmenn væru til í það að taka á sig launalækkun gegn því að spila færri leiki, minnka álagið og meiðast þar með minna.

Real Madrid mætir Napoli í Meistaradeildinni í kvöld en spænska liðið er án átta leikmanna í leiknum. Thibaut Courtois, Kepa Arrizabalaga, Éder Militão, Eduardo Camavinga, Aurélien Tchouaméni, Luka Modric, Vinícius Júnior og Arda Güler eru allir meiddir.

„Fyrir toppleikmann hjá toppklúbb þá er leikjadagskráin mjög krefjandi,“ sagði Dani Carvajal á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Nú er að koma ný heimsmeistarakeppni félagsliða og við missum því sumarfríið okkar. Ég er sammála Carlo Ancelotti og fleirum sem segja að það séu of margir leikir. Öll þessi meiðsli eru engin tilviljun,“ sagði Carvajal.

„Þetta kemur á endanum niður á leikmönnunum en það er erfitt að ná sátt á milli allra aðila. Þetta er flókið. Staðreyndin er sú að það er mikið um meiðsli og ég tel að leikjadagskráin sé þar um að kenna,“ sagði Carvajal.

„Fullt af fólki segir: Af hverju lækka leikmenn ekki launin sín? Við höfum aldrei sagt að við séum ekki til í slíkt. Ef við fáum lægra borgað fyrir færri spilaða leiki þá væri það ekkert vandamál. Fyrir vikið þá sjáum við ekki leikmenn upp á sitt besta. Það er raunveruleikinn,“ sagði Carvajal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×