Skoðun

Pláss fyrir 125 far­þega í 18 metra Borgar­línu­vagni

Ásdís Kristinsdóttir skrifar

Er Borgarlínan lest? Við hjá Verkefnastofu Borgarlínunnar fáum reglulega þessa spurningu, en henni er auðsvarað. Nei, Borgarlínan er ekki lest. Borgarlínuvagnarnir verða líkari venjulegum almenningsvögnum en þeir verða 18 metra langir liðvagnar á hjólum með plássi fyrir 125 farþega. Þetta verða rafmagnsvagnar og að hámarki 29 tonn að þyngd, með þrepalausu aðgengi, sem þýðir að fólk þarf ekki að stíga upp í þá, eins og er í dag. Þannig verða vagnarnir aðgengilegir fyrir alla, þar með talið fólk sem notar hjólastóla og fólk með barnavagna.

Borgarlínan snýst um að gera almenningssamgöngur að þægilegum og aðgengilegum ferðamáta og stórbæta þjónustu við íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins. Borgarlínan mun tengja betur saman höfuðborgarsvæðið með meiri lífsgæðum fyrir íbúa og gesti. Lykilatriði er að Borgarlínuvagnarnir munu að mestu aka í sérrými en þannig komast þeir á milli staða á annatíma, sama hvernig umferðin er á öðrum akreinum. Auk þess fá vagnarnir forgang á gatnamótum. Þetta tvennt, sérrými og forgangur, tryggir styttri ferðatíma og áreiðanleika.

Ætlunin er að vagnarnir aki oft á klukkutíma og ferðirnar verði áreiðanlegar, en á háannatíma verða þær á 7-10 mínútna fresti svo það verður aldrei langt í næsta vagn. Ef fleiri þurfa pláss í Borgarlínuvagni á háannatíma verður hægt að bæta við fleiri vögnum til að anna eftirspurn. Það verður enginn skilinn eftir.

En hvað er að gerast í Borgarlínuverkefninu? Hönnun Borgarlínunnar er í fullum gangi. Verkefnið felur meðal annars í sér að endurhanna göturými á höfuðborgarsvæðinu til að koma fyrir sérrými fyrir Borgarlínuvagna, ásamt Borgarlínustöðvum. Í verkefninu felst einnig að hanna göngu- og hjólastíga svo að til verði heildstætt kerfi sem stuðlar að því að fólk geti ferðast til og frá Borgarlínustöðvum með því sem kallað er virkum ferðamáta. Virkur ferðamáti er til dæmis að ganga eða hjóla. Með því að skoða þetta allt í samhengi og búa til öruggt og þægilegt kerfi er hægt að styðja við breyttar ferðavenjur hjá fjölda fólks sem hefur áhuga á að nýta sér góðar almenningssamgöngur í bland við virka ferðamáta.

Höfundur er forstöðumaður Verkefnastofu Borgarlínu.




Skoðun

Sjá meira


×